Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Tvö smit greindust í gær - annað utan sóttkvíar

09.05.2021 - 10:58
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson
Tvö COVID-19 smit greindust innanlands í gær, annar þeirra sem smituðust var ekki í sóttkví. Miklar sýnatökur voru í Skagafirði í gær vegna fjögurra staðfestra COVID-19 smita í fyrradag. Tvö sýnanna reyndust jákvæð og að auki er verið að rannsaka tvö sýni betur. Ekkert smit greindist á landamærunum þrátt fyrir að í gær kæmu hingað mun fleiri flugfarþegar en venja hefur verið til síðustu mánuði.

Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn á Norðurlandi vestra og varaformaður byggðaráðs Skagafjarðar, sagði í samtali við fréttastofu í dag að verið væri að klára að fara yfir þau sýni sem gáfu ekki skýra niðurstöðu. Hann segir að aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra komi saman til fundar klukkan tvö í dag. Þá verður farið yfir þau gögn sem liggja fyrir og ákvarðanir teknar um næstu framkvæmdir. 

Bæjaryfirvöld í Sveitarfélaginu Skagafirði hafa hvatt íbúa til að fara að öllu með gát og minnt á persónulegar sóttvarnir. Leiksýningu og kvikmyndasýningum var frestað í sveitarfélaginu, heitum pottum hefur verið lokað í sundlaugum og mælst var til þess að íþróttaæfingar yngri flokka yrðu felldar niður þar til heildarmynd er komin á dreifingu smita. Þá hefur umhverfisdögum sem áttu að hefjast á föstudag verið frestað um óákveðinn tíma, þar á meðal plokkáskorendakeppni milli fyrirtækja. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV