Talar við blómin í gömlum undirgöngum

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn

Talar við blómin í gömlum undirgöngum

09.05.2021 - 20:00

Höfundar

Ómar Ellertsson rekur blómabúðina Upplifun við Laugaveg ásamt manninum sínum honum Árna. Upplifun er eins og lítið ævintýraland og blómin bókstaflega kalla á mann. Ómar hefur verið lengi í þessum bransa, hann er úr Njarðvík og opnaði sína fyrstu búð í Keflavík.

„Ég var ekki mikill vinnuvélakall eins og pabbi. Hann var með verktakafyrirtæki svo ég fór bara hina leiðina, fíngerðu. En hann var voða ánægður með það þegar ég gat hjálpað honum í sumarbústaðnum með að gróðursetja,“ segir Ómar.

Upplifun, sem var síðast rekin í Hörpu, er í dag líka andyri að hóteli sem hjónin reka. Staðurinn er sögulegur og ólíkur öllu öðru. 

„Háskóli Íslands á þetta hús. Við leigjum af Menningarsjóði Ludwigs Storr. Þetta eru gömul undirgöng eins og margir muna eftir. Mósaíkin er síðan 1956 þegar Ludwig Storr undirbýr þetta fyrir heimsókn Danakonungs og Ingiríðar drottningar. Hann vildi hafa þetta með smá hvelfingu og elegant.“