Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Smit í Skagafirði tengjast skólum og heilbrigðisstofnun

Mynd: RÚV / RÚV
„Þetta hefur tengsl inn í skólana hjá okkur, þetta hefur tengsl inn í heilbrigðisstofnunina og þetta hefur tengsl hér inn í þjónustufyrirtæki sem fer víða. Þannig það var ákvörðun aðgerðastjórnar að grípa strax inn í og með mjög ákveðnum hætti til þess að reyna að sporna við þessu og stoppa þetta strax,“ segir Stefán Vagn Stefánsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Norðurlandi Vestra.

Gripið hefur verið til harðra sóttvarnaaðgerða í Skagafirði og Akrahreppi í kjölfar hópsýkingar sem kom upp á föstudag. Þær tilslakanir sem taka gildi á landinu á morgun taka því ekki til þessara tveggja sveitarfélaga. Sex smit hafa verið greind og tæplega þrjú hundruð manns eru í sóttkví. 

„Við erum að loka skólum, við erum að loka leikskólum, við erum að færa próf í fjölbrautarskóla yfir í rafrænt form. Við erum að loka íþróttamiðstöðvum, við erum að loka á æfingar barna. Þannig að við erum að herða gríðarlega á hér,“ segir Stefán. 

Sex smit hafa greinst sem er í sjálfu sér ekki mörg smit.

„Nei, þetta er alveg rétt. Þetta eru ekki mörg smit í sjálfu sér. Það eru tvö sýni sem er verið að skoða sérstaklega sem gætu bæst við. Fyrri sýnatakan sem var í gær þarf ekki að hafa gefið rétta mynd af því hvort viðkomandi væri með veiruna í sér eða ekki. Miðað við upphafstíma og fleira, þá töldum við rétt að grípa til þessa úrræðis að taka mjög hart á þessu strax í upphafi. Þetta hefur tengsl inn í skólana hjá okkur, þetta hefur tengsl inn í heilbrigðisstofnunina og þetta hefur tengsl hér inn í þjónustufyrirtæki sem fer víða. Þannig það var ákvörðun aðgerðastjórnar að grípa strax inn í og með mjög ákveðnum hætti til þess að reyna að sporna við þessu og stoppa þetta strax,“ segir Stefán Vagn. 

Smitin eru af breska afbrigði veirunnar.