Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segja táragas hafa áhrif á tíðahring kvenna

09.05.2021 - 11:58
Protesters walk through chemical irritants dispersed by federal agents at the Mark O. Hatfield United States Courthouse on Thursday, July 23, 2020, in Portland, Ore. Following a larger Black Lives Matter Rally, several hundred demonstrators faced off against federal officers at the courthouse. (AP Photo/Noah Berger)
 Mynd: Noah Berger - ASSOCIATED PRESS
Næstum þúsund konur sem tóku þátt í mótmælum í Bandaríkjunum í fyrra, segjast hafa upplifað breytingar á tíðahring sínum eftir að hafa orðið fyrir táragasi. Prófessor segir niðurstöðurnar bæta við fyrri rannsóknir á áhrifum táragass, sem hingað til hafa mest verið prófaðar á körlum.

Fjölmenn mótmæli spruttu upp í Portland í Oregon síðasta sumar, og reyndar mun víðar. Ástæðan var örlög George Floyd sem var myrtur af lögreglumanninum Dereck Chauvin. 

Víða lenti mótmælendum og lögreglumönnum saman í kjölfarið og táragasi var víða beitt. Meðal annars í Portland. Um þúsund konur, sem tóku þátt í mótmælunum og urðu fyrir táragasi, greina nú frá breytingum á tíðahring sínum eftir atburðinn. Svo margar voru frásagnirnar að Britta Torgrimson-Ojerio hjá bandarísku heilbrigðisstofnuninni Kaiser Permanente Northwest ákvað að rannsaka málið. Um helmingur þeirra sem tóku þátt í rannsókninni sögðust hafa upplifað óreglulegri og meiri blæðingar, verri tíðaverki og aðrar breytingar á tíðahring sínum.

Læknirinn Torgrimson-Ojerio segir niðurstöðurnar sá efasemdum um þá útbreiddu staðhæfingu að táragas hafi mikil líkamleg áhrif í stuttan tíma, en engar langvarandi aukaverkanir. 

Fjölmargar hafa síðan í fyrra tjáð sig um þessar aukaverkanir eftir mótmælin í fyrra. Fimm transmenn, sem allir taka testósterón, sögðu blæðingar hafa byrjað aftur hjá sér eftir að hafa lent í táragasi. 

Sven-Eric Jordt, prófessor við Duke háskólann, sagði þessar niðurstöður bæta talsverðu við aðrar rannsóknir á áhrifum táragass, sem hingað til hafa langmest verið rannsökuð hjá ungum karlmönnum. 
 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV