Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Khan endurkjörinn borgarstjóri Lundúna

09.05.2021 - 02:11
epa09186671 The Labour Party's mayoral candidate Sadiq Khan makes an acceptance speech after being declared the winner of the London Mayoral election at City Hall in London, Britain, 08 May 2021. Britons voted on 06 May 2021 in local and mayoral elections.  EPA-EFE/VICKIE FLORES
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Sadiq Khan var endurkjörinn í embætti borgarstjóra Lundúna í kosningunum í vikunni. Khan, sem var fulltrúi Verkamannaflokksins, hafði betur gegn Íhaldsmanninum Shaun Bailey. Minna munaði þó á þeim en búist var við.

Khan hlaut 1,2 milljónir atkvæða en Bailey rétt innan við 978 þúsund. Kjörsókn var lægri en í borgarstjórnarkosningunum fyrir fimm árum, um 42 prósent.

Sigur Khan er ein af fáum jákvæðum fréttum fyrir Verkamannaflokkinn eftir kosningarnar á fimmtudag. Keir Starmer, formaður flokksins, kvaðst á föstudag taka fulla ábyrgð á slæmum úrslitum flokksins. í gær ákvað hann svo að reka þingkonuna Angelu Rayner úr embætti kosningastjóra flokksins, nokkuð sem flokksmenn eru ósáttir við. Guardian hefur eftir einum framámanni í Verkamannaflokknum að það sé hreint fáránlegt að Rayner sé látin fjúka vegna úrslitanna. Stuðningsmenn hennar segja hana aldrei hafa fengið fullt vald yfir kosningastjórninni, heldur hafi baráttunni að mestu leyti verið stjórnað frá skrifstofu Starmers. Andy Burnham, sem var endurkjörinn borgarstjóri Manchester, sagðist ekki geta stutt þessa ákvörðun.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV