Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grípa til harðra aðgerða gegn COVID-19 í Skagafirði

09.05.2021 - 18:05
Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV
Tilslakanir sem taka áttu gildi á öllu landinu á morgun frestast um eina viku í Skagafirði og Akrahreppi, samkvæmt ákvörðun sóttvarnalæknis. Þetta er vegna sex COVID-19 smita sem greinst hafa í sveitarfélaginu. Á þriðja hundrað eru í sóttkví og um 400 sýni voru tekin í dag til að meta útbreiðslu faraldursins. Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra ákvað á fundi sínum í dag að grípa til harðra aðgerða.

Allt skólahald fellur niður í grunnskólanum Árskóla næstu vikuna og leikskólinn Ársalir verður lokaður öllum nema börnum foreldra sem eru í skilgreindum forgangshópum, svo sem heilbrigðisstarfsmönnum, lögreglumönnum og sjúkraflutningamönnum, næstu vikuna. Sundlaugar sveitarfélagsins og önnur íþróttamannvirki verða lokuð fram á mánudag. Undantekningin er sú að meistaraflokkar fá að æfa.

Vonast til að vinna bug á veikinni í þessari viku

Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, sagði í kvöldfréttum RÚV að búið sé að staðfesta sex smit en að um 400 manns hafi farið í sýnatöku og ekki sé búið að greina þau öll. Það eru á þriðja hundrað í sóttkví nú þegar.

„Það er markmiðið að reyna að vinna bug á þessu helst í þessari viku,“ sagði Sigfús Ingi. Enn er beðið greiningar á fjölda sýna. „Við vonumst til þess að þau komi í kvöld, þau koma annað hvort í kvöld eða á morgun.“

Fjölbrautaskóla lokað og heimapróf í stað staðarprófa

Gripið verður til fleiri aðgerða til að sporna gegn frekari útbreiðslu veikinnar í Skagafirði. Heimavist Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra verður rýmd eins og kostur er og skólanum lokað. Próf sem eru á dagskrá næstu daga verða heimapróf. 

Skíðasvæðinu í Tindastóli hefur verið lokað, ráðhúsið á Sauðárkróki verður lokað þar til annað verður ákveðið og umhverfisdögum er frestað um óákveðinn tíma. 

Fundum sveitarstjórnar, nefnda og ráða sveitarfélagsins verður frestað um viku. Sömuleiðis verður öllum menningarviðburðum frestað til og með næsta sunnudags. 

Dregið úr starfsemi fyrirtækja

Fjölmörg fyrirtæki hafa ákveðið að draga úr starfsemi sinni eða loka alfarið næstu daga. Undantekningin er sú að Skagfirðingabúð lengir opnunartíma sinn. Það er gert til að dreifa verslun á lengri tíma yfir daginn og draga úr fjölda þeirra sem eru inni hverju sinni.

Veitingastaðir og menningarstofnanir verða lokaðar næstu vikuna. Sömu sögu er að segja af afgreiðslu Byggðastofnunar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.

Fréttin hefur verið uppfærð.