Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

ESB hefur ekki pantað meira bóluefni frá AstraZeneca

09.05.2021 - 14:50
epa09074881 (FILE) - A vial of AstraZeneca's Covid-19 vaccine stored in Movianto in Oss, The Netherlands, 12 February 2021 (reissued 14 March 2021). The Dutch health ministry on 14 March 2021 said it was suspending the AstraZeneca vaccine rollout, just days after pressing ahead with its use.  EPA-EFE/Remko de Waal
 Mynd: EPA-EFE - ANP
Bóluefnasamningur Evrópusambandsins við lyfjaframleiðandann AstraZeneca rennur út í júní og ESB hefur ekki sóst eftir því að samningurinn verði framlengdur. Þetta hefur Deutsche Welle eftir Thierry Breton, viðskiptafulltrúa ESB. „Við framlengdum ekki samninginn, við sjáum hvað setur,“ segir hann.

Evrópusambandið höfðaði nýlega mál gegn AstraZeneca og sakar fyrirtækið um að hafa ekki staðið við samning um afhendingu á bóluefni. Breton segir þó að ESB hafi ekki gefist upp á AstraZeneca með öllu, en að bóluefni frá öðrum fyrirtækjum verði látið nægja í bili. 

Fjöldi ríkja hefur takmarkað notkun á bóluefni AstraZeneca við ákveðinn aldurshóp og önnur hafa ákveðið að hætta að nota efnið eftir að í ljós komu tengsl bóluefnisins við mjög sjaldgæfa en alvarlega blóðtappa. Danir og Norðmenn nota bóluefnið ekki, Svíar takmarka notkunina við fólk sem er eldra en 65 ára, hér á landi er efnið ekki gefið konum yngri en 55 ára. 

Í umfjöllun Deutsche Welle kemur einnig fram að nýr samningur ESB við Pfizer og BioNTech, um 1,8 milljarða skammta á næstu tveimur árum, feli í sér meiri kostnað fyrir Evrópusambandið en fyrri samningar um bóluefni. Það sé helst vegna þess að bóluefnið eigi að veita vörn gegn nýjum afbrigðum veirunnar sem feli í sér miklar rannsóknir og hugsanlegar breytingar á framleiðslunni.