Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Bein neanderdalsmanna fundust í ítölskum helli

09.05.2021 - 07:58
This image released by the Italian Culture Ministry shows a cave near Rome where fossil findings were discovered, shedding new light on how the Italian peninsula was populated and under what environmental conditions. The Italian Culture Ministry announced the discovery Saturday, May 8, 2021, saying it confirmed that the Guattari Cave in San Felice Circeo, where a Neanderthal skull was discovered in 1939, was “one of the most significant places in the world for the history of Neanderthals.” (Emanuele Antonio Minerva/Italian Culture Ministry via AP)
 Mynd: AP
Leifar níu neanderdalsmanna fundust í ítölskum helli, um hundrað kílómetrum suðaustur af Róm. Fornleifafræðingar telja hýenur hafa orðið mönnunum að bana fyrir allt að 100 þúsund árum síðan.

Leifarnar fundust í Guattari hellinum. Þar fundust leifar neanderdalsmanna fyrir tilviljun árið 1939, en hafa ekki fundist þar síðan. Sérfræðingar telja leifarnar tilheyra sjö fullorðnum körlum, einni konu og einum ungum dreng. Talið er að þau hafi hvert verið uppi á sínum tímanum. Beinin gætu verið allt frá 50 þúsund upp í 100 þúsund ára gömul.

Guardian hefur eftir fornleifafræðiprófessornum Mario Rolfo að þetta sé magnaður fundur. Grjóthrun, að öllum líkindum af völdum jarðskjálfta, lokaði hellinn alveg af í um 60 þúsund ár, og varðveitti þannig minjarnar.

Auk leifa neanderdalsmanna fundust grænmetisleifar, bein af nashyrningum, hjartardýri, villihestum og hýenum. Vísindamennirnir telja hýenurnar hafa drepið mennina og dregið þá með sér inn í hellinn, þar sem þær höfðu komið sér fyrir. Þar hafi þær svo gætt sér á kjöti bráða sinna.

Að sögn Rolfos stendur til að greina erfðaefni líkamsleifanna til þess að komast á snoðir um lífsvenjur og sögu þeirra. Frumrannsóknir á tannsteini gefa til kynna að mataræði þeirra hafi verið fjölbreytt. 

Neanderdalsmenn héldu til í Evrasíu, frá ströndum Atlantshafsins að Úralfjöllum. Talið er að þeir hafi fyrst komið til sögunnar fyrir um 400 þúsund árum, og vappað um jörðina þar til fyrir rúmum 40 þúsund árum. Þegar við, mannkynið, komum til sögunnar hvarf neanderdalsmaðurinn. Samkvæmt fornleifafundi í Búlgaríu í fyrra voru nútímamenn og neanderdalsmenn uppi á sama tíma í Evrópu í nokkur þúsund ár.