Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

„Bara Danir og Íslendingar munu ná þessu djóki“

Mynd: RÚV / RÚV

„Bara Danir og Íslendingar munu ná þessu djóki“

09.05.2021 - 10:00

Höfundar

Það sauð nánast upp úr í Alla leið-settinu í gær þegar fjallað var um lagið Øve os på hinanden sem er framlag Dana í Eurovision í ár. Sigurður Þorri gefur laginu fjögur stig og hneykslar Friðrik Ómar sem segist viss um að þetta sé lagið sem fái tólf stig Íslendinga í ár. „Heyrðu, litli minn!“ segir Helga um aðdáun Friðriks, og gefur laginu falleinkunn.

Í fjórða þætti Alla leið, sem sýndur var í gær, var farið yfir lögin sem taka þátt í seinni hluta síðari undanúrslita Eurovision ásamt Daða Frey. Á meðal þeirra laga sem klufu dómnefndina að þessu sinni er lagið Øve os på hinanden sem er framlag Danmerkur í ár.

Dúettinn Fyr og Flamme kom sá og sigraði í undankeppninni sem Danmarks Radio hélt, og lagið fór beint á toppinn á dönskum vinsældarlistum. Þykir mörgum að hér sé fortíðarþráin við völd og líður eins og við séum aftur komin á níunda áratuginn með herðapúðum og synþa-hljómum.

„Skammastu þín Sigurður“

Sigurður Þorri gefur laginu fjögur stig en Helga Möller einungis tvö. Gestadómarar þáttarins að þessu sinni eru jákvæðari, Hera Björk gefur laginu sjö en Friðrik Ómar er yfir sig hrifinn. „Fyrir hönd landsbyggðarinnar koma tólf stig. Krakkar, þetta er ekki flókið. Við Íslendingar gefum þessu tólf stig.“

Helga Möller er afar hlessa og hrópar: „Heyrðu, litli minn!“ En Hera er sammála Friðriki. „Ég gef þessu min sødeste syv, mér finnst þetta svo geggjað.“

Friðrik heldur áfram að dásama lagið: „Mér finnst þetta æðislegt, þetta er ekki meðvirkni. Þetta er ekta danskt og ég elska þetta. Skammastu þín, Sigurður,“ segir hann og bendir á Sigurð Þorra og fjarkann hans.

Sigurður viðurkennir að honum þyki lagið skemmtilegt en sísta lag hljómsveitarinnar. „Þeir eru snillingar þessir gaurar en þeir eiga bara svo miklu betri lög. Ég er svo svekktur út í þetta lag, þetta er langversta lagið sem þeir hafa sent frá sér. Þetta er alveg skemmtilegt en þetta er ekki tólfa.“

Húmor sem fáir skilja

Hera er ósammála. „Það er svo mikill húmor í þessu, Fyr og flamme og øve os på hinanden. Það er best.“ Sigurður er þó ekki viss um að öll Evrópa eigi eftir að taka bakföll yfir gríninu. „Bara Danir og Íslendingar munu ná þessu djóki, Svíar munu ekki einu sinni skilja þetta. Þeir skilja ekki dönsku.“

„Þetta er lögreglumál!“

Helga segist ekki deila þessum umrædda húmor með Dönum eða samlöndum sínum og bætir því við að söngvari sveitarinnar kunni ekki einu sinni að syngja. „Hann var falskur og svo syngur hann með skakkan munn,“ segir hún. „Núna er ég bara kjaftstopp og er ósammála ykkur.“

Þegar búið er að telja saman einkunnir verður ljóst að Danmörk fer ekki áfram í undanúrslitum miðað við niðurstöðu álitsgjafa Alla leið. „Þið hafið rangt fyrir ykkur, ég er hættur,“ segir Friðrik og þykist ætla að yfirgefa settið. „Þetta er lögreglumál!“ hrópar Helga Möller.

Alla leið var á dagskrá á RÚV í gærkvöldi. Hér er hægt að horfa á þáttinn í heild sinni.

Tengdar fréttir

Tónlist

Helga rokkar með Finnum: „Var að læra að gera þetta“

Tónlist

„Þarna var sjávarútvegurinn að fullnýta hráefnið“

Tónlist

„Það fyrsta sem ég hugsa er: Er honum alvara?“