Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

50 látnir eftir árás á skóla í Kabúl

09.05.2021 - 05:45
epa09185328 People carry an injured girl into a hospital after an explosion in downtown Kabul, Afghanistan, 08 May 2021. An explosion near a school in Dasht-e-Barchi area west of Kabul killed at least 25 People and left dozens  wounded, according to the Ministry of Interior.  EPA-EFE/HEDAYATULLAH AMID
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fimmtíu eru nú látnir af völdum sprengjuárásar fyrir utan stúlknaskóla í Kabúl, höfuðborg Afganistans, í gær. Bílsprengja var sprengd fyrir utan skólann að sögn Tareq Arian, talsmanns afganska innanríkisráðuneytisins.

Þegar nemendurnir hlupu út úr skólanum skelfingu lostnir sprungu tvær sprengjur til viðbótar, hefur AFP fréttastofan eftir Arian. Fleiri en hundrað eru særðir eftir árásina.

Viðbúnaðarstig í Kabúl var hækkað eftir að Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, boðaði að allir bandarískir hermenn á svæðinu yrðu kallaðir heim fyrir 11. september. Yfirvöld í Afghanistan hafa varað við því að Talibanar reyni þá að seilast aftur til áhrifa. Enginn hefur enn lýst ódæðinu á hendur sér, en Talibanar hafa þegar svarið það af sér. Arian kveðst þó fullviss um að Talibanar hafi gert árásina, og tekur þar með undir ásakanir forsetans Ashraf Ghani um slíkt hið sama.

Stjórnvöld og alþjóðastofnanir fordæma árásina. Ross Wilson, ræðismaður Bandaríkjanna í Kabúl sagði hana andstyggilega. „Þessi ófyrirgefanlega árás á börn er árás á framtíð Afganistans, sem verður ekki liðið," skrifaði Wilson á Twitter.

Nefnd Evrópusambandsins í Afganistan sagði árásina viðurstyggilegt hryðjuverk. Árásinni væri beint að framtíð Afganistans, ungu fólki sem var viljugt til að efla land sitt. Sendinefnd Sameinuðu þjóðanna í Afganistan lýsti hryllingi yfir árásinni.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV