„Við eigum þennan dásamlega kvíða sameiginlegan“

Mynd: RÚV / RÚV

„Við eigum þennan dásamlega kvíða sameiginlegan“

08.05.2021 - 16:13

Höfundar

„Manni líður svolítið eins og maður sé algjörlega allsber að hlaupa niður Laugaveginn, þetta er algjör berskjöldun,“ segir Selma Björnsdóttir. Hún gaf út fyrsta lagið sitt í tíu ár á dögunum. Lagið er hluti af sýningunni Bíddu bara sem ratar á fjalirnar í haust eftir langa bið.

Fyrsta lag leikstjórans, leik- og söngkonunnar Selmu Björnsdóttur í tíu ár er komið út og það nefnist Undir stjörnum. Lagið tengist leiksýningunni Bíddu bara sem átti að fara á svið með hækkandi sól en ratar ekki á fjalirnar fyrr en í haust í Gaflaraleikhúsinu, vegna samkomutakmarkana.

Leikritinu er lýst sem hlátursprengju fyrir glaðsinna grindarbotna og er eftir þær Björk Jakobsdóttur, Sölku Sól Eyfeld og Selmu sem leika í sýningunni en Ágústa Skúladóttir leikstýrir. Höfundarnir leika sjálfa sig og fara með gamanmál í sýningunni sem samanstendur af söng, samtali og uppistandi. „Ég hef ekki gefið neitt út í tíu ár því maður er búinn að vera meira í leikhúsinu en í tónlist, en mig langaði að hleypa þessu lagi út í sumarið því það er algjör gleðisprengja,“ segir Selma kankvís um nýja lagið. „Og mér þótti algjör synd að sitja á því út sumarið þó að sýningin fái ekki að líta dagsins ljós fyrr en í haust.“

Í haust fá áheyrendur líka að heyra annað lag úr sýningunni sem fjallar um kvíða. Þær gerðu nefnilega uppgötvun í þróunarferlinu sem varð kveikjan að laginu. „Við erum að gera stólpagrín að okkur við stelpurnar, erum með stand-up, leiknar senur og sketsa og komumst að því að við erum allar með rosalegan kvíða, líka leikstjórinn Ágústa Skúladóttir.“ Þær sáu sér vart annað fært en að semja lag um þá staðreynd og verður lagið flutt í sýningunni. „Það kom ýmislegt upp á yfirborðið þegar við fórum að vinna náið saman og við eigum þennan dásamlega kvíða sameiginlegan.“

Selma viðurkennir að það hafi verið svekkjandi að átta sig á því að þær þyrftu að fresta sýningunni fram á haust því hópurinn er afar spenntur yfir að fá að setja hana á svið. „Auðvitað dró það smá úr manni að vita að maður væri ekki að fara að frumsýna fyrr en fjórum mánuðum síðar. En miðasalan er enn í gangi og maður vonar því að fólk láti þetta ekki stoppa sig.“

Sýningin sé fyrir alla. Hún fjallar um þær ólíku konur sem að henni standa, hvað þær eiga sameignlegt og hvaða reynslu þær eiga að baki sem er ólík hinna í hópnum. „Salka er nýbúin að eignast barn og er þrjátíu og eitthvað. Ég er fjörutíu og eitthvað og hef skilið og verið einstæð móðir. Svo hefur Björk verið gift í hundrað og sextíu ár og er búin að ganga í gegnum tíðahvörf og allt.“ Hópurinn gerir stólpagrín að ýmsu í eigin lífi og fari og flytur lög um það líka. Selma segir ekki fjarri lagi að lýsa sýningunni sem nútíma-kabarett.

Björk og Selma hafa báðar mikla reynslu af leikstjórn og Selma viðurkennir að stundum hafi þær átt erfitt með að halda aftur að stjórnseminni. „Allar með rosa skoðanir og vesen,“ segir hún og hlær. „En Ágústa Skúla hefur náð að tækla okkur mjög vel.“

Þær fá enda allar að leggja sitt af mörkum í þróunarferlinu því þær skrifa sýninguna sjálfar. En það getur líka verið stressandi að berskjalda sig fyrir alþjóð. „Maður verður svo stressaður því maður er að fjalla um sjálfa sig og reyna að vera fyndinn. Þannig að manni líður svolítið eins og maður sé algjörlega allsber að hlaupa niður Laugarveginn, þetta er algjör berskjöldun.“

Felix Bergsson ræddi við Selmu Björnsdóttur í Fram og til baka á Rás 2.

Tengdar fréttir

Tónlist

„Það fyrsta sem ég hugsa er: Er honum alvara?“

Tónlist

Selma djammaði líkt og það væri 1999 í Vikunni