Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Umtalsverður munur á gengi bólusetninga í heiminum

08.05.2021 - 18:57
Mynd: EPA-EFE / EPA
Bólusetning gengur best í Norður-Ameríku og Evrópu en hægast í Asíu og Afríku. Í Suður-Ameríku, líkt og í hinum heimsálfunum, gengur bólusetning misvel milli landa. Tæplega helmingur íbúa Chile hefur verið bólusettur en kirkjugarðar í Perú eru yfirfullir þar sem önnur bylgja faraldursins stendur sem hæst.

Bólusetning gengur mis vel eftir heimsálfum og aðgengi þeirra að bóluefni er einnig mis gott. Best gengur í Norður-Ameríku þar sem um 30% hafa fengið allavega fyrri skammt bóluefnis. Tuttugu og þrjú prósent Evrópubúa hafa fengið bóluefni, en hægar gengur í Asíu og Afríku þar sem 1-5% íbúa hafa fengið allavega fyrri skammtinn. 

Þar mitt á milli er Suður-Ameríka en ríflega 12% Suður Ameríkubúa hafa fengið allavega fyrri skammt bóluefnis. En innan heimsálfunnar er einnig umtalsverður munur á gangi bólusetningar. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Grafík

Langbest virðist ganga í Chile. Þar búa um 19 milljónir en 44% þeirra hafa fengið hið minnsta fyrri skammt bóluefnis. Meirihluti þeirra fékk kínverska bóluefnið CoronaVac.

Í Argentínu búa um 45 milljónir. Sautján prósent þeirra hafa fengið fyrri skammtinn hið minnsta. Önnur bylgja faraldursins geisar þar í landi, að síðustu daga hafa að meðaltali fimm til sex hundruð manns dáið þar daglega vegna COVID-19. Súrefnisskortur og yfirfullir spítalarar hafa gert umönnun sjúklinga í Argentínu enn erfiðari. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/Grafík

Um 15% af þeim ríflega 210 milljónum sem búa í Brasilíu hafa nú fengið í það minnsta fyrri skammt bóluefnis. 

Kórónuveirufaraldurinn hefur leikið Brasilíu afar grátt. Um 420 þúsund hafa látist vegna sjúkdómsins og Brasilía er í þriðja sæti yfir þau lönd heims þar sem flest smit hafa greinst, eða yfir 15 milljónir. Aðeins í Bandaríkjunum og Indlandi hafa fleiri smit greinst. 

Bólusetning gengur enn hægar í Perú. Rétt tæp 4% þeirra ríflega 32 milljóna sem þar búa hafa fengið bóluefni við COVID-19. Önnur bylgja faraldursins skellur nú á Perú af fullum krafti. Aldrei hafa fleiri látist þar í landi vegna sjúkdómsins og í síðasta mánuði. Enda eru kirkjugarðar víða yfirfullir. 

Svo mjög að hinn 72 ára Victor Coba ákvað að útbúa sinn eigin grafreit í nágrenni heimilis síns svo hann eigi sér vísan stað þegar þar að kemur, eins og sjá má á meðfylgjandi myndskeiði. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV