Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Svipað veður áfram

08.05.2021 - 07:50
Mynd með færslu
 Mynd: Ásrún Brynja Ingvarsdóttir - RÚV
Lítil tíðindi eru af veðri þessa dagana, það verður svipað á næstunni og verið hefur undanfarið. Veðurstofan spáir norðaustanátt í dag, víða fimm til tíu metrum á sekúndu. Það verður léttskýjað um landið sunnan- og vestanvert en él norðaustan til. Svipað veður verður á morgun en hvessir dálítið, þar sem vindur getur farið í allt að þrettán metra á sekúndu við Suðausturströndina. Hiti frá frostmarki að þremur stigum austan- og norðaustan til, en þrjú til átta stig á vestanverðu landinu.

Næturfrost verður um allt land.

„Áfram heldur sterk hæð yfir Grænlandi veðrakerfunum sunnan við land og ekki er útlit fyrir mikla úrkomu á suðvestanverðu landinu í einhvern tíma,“ segir í pistli veðurfræðings. „Vert er því að minnast á gróðureldahættu þrátt fyrir þá úrkomu sem féll í gær og nótt. Hún verður fljót að gufa upp eða hverfa í jarðveginn þar sem magnið var ekki mikið. Búast má við keimlíku veðri næstu daga og hefur verið með dálitlum blæbrigðum milli daga. Norðlægar áttir, él og svalt veður norðaustantil en bjartara yfir, yfirleitt þurrt sunnan- og vestanlands og hiti 3 til 8 stig að deginum þar.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV