Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skoða möguleika á hraðprófum og undanþágu frá sýnatöku

08.05.2021 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd: Þórhildur Þorkelsdóttir - RÚV
Stjórnvöld skoða nú möguleika á að auka getu til að taka sýni vegna COVID og greina þau samhliða mikilli fjölgun ferðamanna á næstunni. Einnig verður kannað hvort nota eigi hraðvirk PCR-próf til viðbótar við þau próf sem hafa verið notuð hingað til. Jafnframt hefur verið rætt hvort réttlætanlegt sé að hætta sýnatöku hjá þeim sem framvísa vottorði við komuna til landsins.

Þetta kemur fram í tillögum starfshóps sem heilbrigðisráðherra skipaði til að fjalla um greiningargetu og þörf fyrir sýnatöku. Ráðherra gerði grein fyrir tillögunum á ríkisstjórnarfundi í gær. Starfshópinn skipuðu fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins, forsætisráðuneytisins, sóttvarnalæknis, Landspítalans, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Sjúkrahússins á Akureyri.

Meðal tillagna hópsins má nefna að áhersla verði lögð á notkun hraðvirkra PCR-prófa. Hópurinn áætlar að hægt sé að byrja að nota slík próf innan mánaðar hjá Landspítalanum. Einnig á að skoða hversu fýsilegt er að sameina sýni innan spítalans og hrinda því í framkvæmd þegar þess er kostur. Jafnframt eru uppi hugmyndir um að auka greiningargetuna með því að bjóða fólki á leið úr landi upp á hraðpróf þegar það þarf á sýnatöku að halda. Það getur bæði átt við um Íslendinga sem eru að fara í ferðalög til útlanda og erlenda ferðamenn sem hafa verið hér en eru að halda til síns heima. 

Starfshópurinn leggur einnig til að mannafli á rannsóknarstofu Sjúkrahússins á Akureyri verði aukinn og að sjúkrahúsið fái heimild til að kaupa nýtt greiningartæki. Sú vinna er þegar hafin. 

Meðal tillagna sem snúa að landamærunum er að skoða hvort nota megi hraðpróf í seinni sýnatöku hjá ferðamönnum sem sæta sóttkví og hvort að sleppa megi sýnatöku á landamærunum hjá þeim sem framvísa vottorði við komuna.

Bætt við greiningargetuna á Akureyri

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði að loknum ríkisstjórnarfundi í gær að meðal annars væri verið að skoða hvernig ætti að bregðast við vottorðum, hvernig sýnatökugetan á Keflavíkurflugvelli væri efld og greiningargetan innanlands. „Við höfum getað bætt við greiningargetuna á Akureyri, við sjáum möguleika með aukinni mönnun að auka greiningargetuna á Landspítala.“ Hún sagði jafnframt til skoðunar að hætta að gera ráð fyrir sýnatöku þegar fólk framvísaði vottorði við komuna hingað til lands. Nú sleppur fólk við fimm daga sóttkví ef það framvísar vottorði en þarf engu að síður að fara í gegnum einfalda sýnatöku.