Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Páll segir Ísland vel aflögufært um öndunarvélar

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti
Íslensk stjórnvöld ætla að gefa 17 öndunarvélar til Indlands í ljósi alvarlegrar stöðu kórónuveirufaraldursins þar í landi. Indversk stjórnvöld hafa þegið boðið. Almannavarnir Evrópusambandsins taka að sér að flytja vélarnar út, fyrir milligöngu heilbrigðisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins. Ísland tekur þátt í almannavarnastarfi sambandsins á grundvelli EES-samningsins.

 

Hluti vélanna sem spítalinn fékk að gjöf

Gert er ráð fyrir að vélarnar verði sendar út á næstu dögum, en þetta er hluti þeirra véla sem Landspítalinn fékk að gjöf þegar faraldurinn stóð sem hæst hér á landi í fyrra. Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir ekki þörf á vélunum hér. „Fyrir svona tveimur vikum vorum við að fara yfir málin. Á sama tíma voru að berast vaxandi fréttir um neyð á Indlandi þar sem meðal annars skortir öndunarvélar. Við fórum yfir okkar stöðu á öndunarvélum, sem er mjög góð, þökk sé þeim örlátu gefendum sem hjálpuðu okkur fyrir ári síðan, og full þörf var á,“ segir Páll. 

Nóg til hér

Niðurstaðan var sú að spítalinn væri aflögufær um 17 fullbúnar vélar. „Við viljum þá gefa þær áfram til Indlands. Við teljum að við getum gefið þennan fjölda án þess að ógna á nokkurn hátt öryggi innanlands.“