Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nokkuð góð staða á Sóttkvíarhótelum um helgina

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Staðan á sóttkvíarhótelunum er mjög vel viðráðanleg núna um helgina, að sögn Aðalheiðar Jónsdóttur starfsmanns Rauða krossins. Margir gesta séu að ljúka sóttkví og þá losni nokkuð um.

Óvissa geti verið nokkur um fjölda komufarþega hverju sinni, fyrir komi að ferðum sé aflýst og mismunandi sé hve margir farþegar komi með hverri vél.

Aðalheiður kveðst búast við að álagið aukist talsvert þegar líður á vorið og sumarið þegar ferðum til landsins fjölgar.

Gildandi landamærareglur, þar sem ferðamönnum frá skilgreindum áhættusvæðum er skylt að dvelja í sóttkví í sóttvarnahúsi undir eftirliti, renna út 30. júní. 

Sigurgeir Sigmundsson, yfirlögregluþjónn á Keflavíkurflugvelli, segir allt hafa gengið vel á flugvellinum það sem af er degi.

Verklagi hafi verið breytt hjá landamæravörðum og lögreglu í gær svo afgreiðsla bólusettra gangi hraðar án þess að draga úr öryggiskröfum.

Þegar hafa sjö flugvélar lent í Keflavík í dag og sú áttunda er væntanleg frá Tenerife á níunda tímanum í kvöld.