Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Leiða saman hesta, hjólhesta og önnur farartæki

08.05.2021 - 12:29
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Gauti
Hestafólk, hjólreiðafólk, skíðagöngumenn, hundaeigendur, ökumenn og fulltrúar annarra vegfarenda undirrituðu í morgun sáttmála og hrintu úr vör fræðsluverkefni. Hagsmunir hópanna hafa ekki alltaf farið saman og komið hefur til orðaskaks á stígum og í netheimum en nú horfir til betri vegar í samskiptum þeirra. 

Leiða saman hesta sína ,hjólhesta og fleiri farartæki

Áhugi á útivist hvers konar hefur stóraukist í faraldrinum og árekstrar virðast því tíðari. Vegfarendur fara óvarlega og fæla hesta, hestafólk eyðileggur skíðaslóða í gáleysi, hjólreiðafólk notar hestastíga í leyfisleysi og hestafólk hjólastíga. Á síðasta ári voru 160 hestaslys skráð hjá Bráðamótttöku Landspítalans, sum alvarleg og oft er ástæðan sú að hesturinn fælist og tekur á rás. Nú ætla þessir hópar að leggja sig fram við að sýna hver öðrum gagnkvæma virðingu og tillit. Í því augnamiði var gert sérstakt myndband um það sem hafa þarf í huga í kringum hesta svo þeir hvekkist ekki.

Fulltrúar tólf félaga undirrituðu sáttmálann, þar á meðal Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamanna. „Þetta er löngu tímabært, gríðarlega jákvætt og skemmtilegt skref og gaman að menn skuli vera tilbúnir til að taka þetta samtal og hvað allir aðrir útivistarhópar hafa tekið vel í þetta. Við hestamenn erum náttúrulega alltaf í þessu brasi að vera með lifandi skepnu.“ 

Uppbyggileg umræða í stað orðaskaks og hörku

Það hefur ýmislegt á undan gengið, en nú horfir til betri vegar í samskiptum hópanna. „Umræðan eins og við þekkjum á samfélagsmiðlum og annað vill oft fara út um þúfur, menn vilja fara svolítið harkalega fram og jafnvel á stígunum þar sem menn hafa lent í orðaskaki, ég held nú ekki átökum beint en samt, eftir því sem umræðan er að þroskast og þróast þá finnst menn miklu frekar vera að tala á jákvæðum og uppbyggilegum nótum, ég hef ekki orðið var við svona jákvæða og uppbyggilega strauma eins og maður hefur séð undanfarið, bæði á hjólreiða og hestasíðum. Mér hefur fundist samtalið vera ótrúlega jákvætt.“  

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV