Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Jafnt á öllum tölum í kvöld

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Jafnt á öllum tölum í kvöld

08.05.2021 - 21:20
Þrír leikir voru spilaðir í annarri umferð úrvalsdeildar karla í fótbolta í kvöld. Blikar sem margir hafa spáð titlinum í ár voru heppnir að krækja í stig gegn nýliðum Leiknis.

Liðin mættust í Breiðholti og Daninn Thomas Mikkelsen kom Breiðabliki yfir á 26. mínútu. Dagur Austmann jafnaði fyrir heimamenn í uppbótartíma fyrri hálfleiks og staðan 1-1 í leikhléi. Emil Berger kom Leiknismönnum svo yfir eftir um tíu mínútna leik í síðari hálfleik og ekki leið á löngu áður en Sævar Magnússon jók forystuna í 3-1 með marki úr víti. Jason Daði Svanþórsson reyndist svo hetja Blika því hann skoraði tvö mörk á síðustu tuttugu mínútunum og jafntefli niðurstaðan. 

Á Akranesi náði Víkingur forystunni strax á fyrstu mínútu með marki frá Helga Guðjónssyni og þannig var staðan allt fram í blálokin þegar Þórður Þórðarson skoraði úr víti. 

Loks tók HK á móti Fylki í Kórnum. Djair Parfitt-Williams kom Fylki yfir í fyrri hálfleik og skoraði annað mark snemma í þeim síðari. Stefán Alexander Ljubicic minnkað muninn stuttu síðar og Ásgeir Marteinsson jafnaði fyrir HK á 91. mínútu, lokatölur 2-2. 

Tveir leikir verða spilaðir annað kvöld þegar FH og Valur mætast og Keflavík og Stjarnan.