Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Helga rokkar með Finnum: „Var að læra að gera þetta“

Mynd: RÚV / RÚV

Helga rokkar með Finnum: „Var að læra að gera þetta“

08.05.2021 - 12:13

Höfundar

Rokkhundarnir í Blind Channel flytja framlag Finna í Eurovision í ár. Ekki eru allir sammála um gæði lagsins, mörgum þykir það gamaldags og hallærislegt en aðrir spá því mjög góðu gengi. Helga Möller segir lagið melódískt og það fær hana til að sveifla hárinu og gera rokkaramerki.

Daði og Gagnamagnið eru nú lögð af stað til Rotterdam með föruneyti sínu sem þýðir að senn líður loks að keppninni sjálfri, sem beðið hefur verið eftir í tvö ár. Í Alla leið í kvöld er farið yfir seinni níu lögin í síðari undanúrslitunum sem fram fara í Rotterdam þann 20. maí. en 22. maí verða úrslitin.

Margir spá því að framlag Finnlands komi á óvart í ár og telja að lagið rati enn ofar en veðbankar spá. Lagið situr nú í ellefta sæti veðbanka en mörgum finnst líklegt að það endi í slagnum um efstu sætin. Aðrir eru mjög efins.

Það er aldamótabragur yfir rokklaginu Dark Side með Blind Channel og þeir syngja um að reka löngutöng upp í loft og gefa skít í að fullorðnast, þeir drekka áfengi til að fara ekki að gráta. Álitsgjafar Alla leið eru alls ekki sammála um lagið. Fastir álitsgjafar í ár eru þau Helga Möller og Sigurður Þorri Gunnarsson en gestir þáttarins í kvöld eru Eurovision-kempurnar Friðrik Ómar og Hera Björk.

Billabong í tísku, ostaslaufa í frímínútum og Limp Bizkit er töff

Sigurður Þorri er neikvæðastur þegar kemur að laginu og hann gefur því fjögur stig. Sigurði finnst það gamaldags og ekkert sérstaklega töff. „Mér líður eins og árið sé 2001, Billabong er aðaltískuvörkumerkið og ég er að borða ostaslaufu í löngufrímínútum í skólanum. Limp Bizkit og allt þetta er vinsælt,“ segir hann. „Þetta á örugglega eftir að komast áfram en ég verð að gefa þessu fjögur stig.“

„Þetta er sæt sjöa“

Helga Möller er nokkuð hrifin og gefur laginu sjö stjig. Á meðan hlustað var æfði hún sig í að gera réttu handahreyfingarnar sem hæfa rokklagi. „Ég var að læra að gera þetta,“ segir hún og sýnir hinum. „Mér finnst þetta bara flott lag. Þetta er sæt sjöa.“

Eins og Eminem og Evanescence hafi eignast börn

Friðrik Ómar og Hera Björk eru sammála um að gefa laginu átta stig. „Þetta er það sem Finnar gera best,“ segir Hera sem er þó sammála Sigurði Þorra að það hljómi eins og lög sem þóttu flott upp úr aldamótum. „Mér finnst eins og Eminem og hljómsveitin Evanescence hafi eignast börn og þetta séu drengirnir,“ og það kemur ekki að sök að hennar mati. „Ég er að fíla þetta, það er útrás í þessu. Þeir eru allir ungir, ekkert of reiðir.“

„Þetta er ekkert klósettlag“

Friðrik Ómar segir að hér sé á ferðinni atriði sem auðvelt væri að klúðra en að félagarnir í Blind Channel leysi verkefnið vel. „Ég fer í fíling, þetta er ekkert klósettlag sem gjarnan er þegar það kemur svona atriði. Mér finnst þetta mjög vel gert hjá þeim.“

Alla leið er á dagskrá kl. 19.45.

Tengdar fréttir

Tónlist

Daði og Gagnamagnið halda til Rotterdam

Popptónlist

Helga Möller var efins um að senda ætti Daða út aftur

Tónlist

„Þarna var sjávarútvegurinn að fullnýta hráefnið“

Tónlist

„Það fyrsta sem ég hugsa er: Er honum alvara?“