Mynd: Jóhannes Jónsson - RUV.IS

Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.
Fjögur smit í Skagafirði og fjöldi í sóttkví
08.05.2021 - 11:44
Fjórir hafa greinst með COVID-19 í Skagafirði og nokkur fjöldi fólks er kominn í sóttkví meðan verið er að rekja smitið og bíða eftir niðurstöðum úr sýnatökum. Smitið uppgötvaðist í sýnatöku vegna einkenna og síðan var fleira fólk sent í sýnatöku.
Fyrst var greint frá smitunum í Skagafirði á Vísi.
Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði, segir að fólkið sem smitaðist tengist allt einum vinnustað. Ekki er þó ljóst á þessari stundu hvort uppruni smitsins sé á einum eða tveimur stöðum. Fólk sem smitaðist hafði verið fyrir sunnan áður en það greindist.
Kórónuveirusmit hefur áður komið upp í Skagafirði og þá tókst að stöðva útbreiðslu þess áður en margir smituðust.