
Dómari stefnir á þingframboð
Fyrst var greint frá framboði Arnars Þórs í viðtali í Morgunblaðinu í dag.
Sjaldgæft er í seinni tíð að starfandi dómarar fari í framboð. Pétur Kr. Hafstein fór í leyfi sem hæstaréttardómari árið 1996 til að bjóða sig fram til forseta. Gunnar Thoroddsen var hæstaréttardómari stutta stund 1970 milli forsetaframboðs og þingframboðs en var hættur í Hæstarétti nokkrum mánuðum áður en hann sneri aftur á þing.
„Ég hef verð ég að segja áhyggjur af því í hvaða átt stjórnmálin eru að þróast og hafa verið að þróast,“ segir Arnar Þór sem hefur tjáð sig meira um þjóðmálin en almennt er meðal dómara. Hann lýsir áhyggjum af því að fúi sé kominn í burðarvirki íslenska lýðveldisins, við því verði að bregðast og ræða þau mál við almenning. Hann nefnir stöðu lýðræðis, grundvallarstofnana lýðveldisns og tengsl almennings við þau auk lýðræðislegrar ábyrgðar.
Arnar Þór segist stefna á öruggt þingsæti. Hann segist engu bættari að vera varaþingmaður því hann gæti ekki sameinað það hlutverk og stöðu hans sem dómari. „Ég get ekki verið í báðum hlutverkum.“ Arnar Þór segist eiga eftir að skoða hvort og þá hvenær hann fari í leyfi meðan á framboði stendur, það ráðist meðal annars af afstöðu þeirra sem reka mál þar sem hann er dómari. Nái hann kjöri til þings hættir hann sem dómari.