Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Brynjar stefnir á annað oddvitasætanna

Brynjar Níelsson
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sækist eftir öðru sæti í prófkjöri flokksins í Reykjavík. Gangi það eftir leiðir hann lista í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Áður hafa Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson tilkynnt að þau sækist eftir efsta sæti í prófkjörinu, sem gefur oddvitasætið á framboðslista.

Brynjar greindi frá ákvörðun sinni á Facebook-síðu sinni í dag. Hann sagðist þar stefna á að verða í framvarðasveit Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Hann segir flokkinn eiga sóknarfæri í kosningunum. Brynjar var fyrst kosinn á þing árið 2013.

Guðlaugur Þór og Sigríður Á. Andersen skipuðu oddvitasætin á listum Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík í síðustu þingkosningum. Brynjar skipaði þá annað sætið á lista flokksins í Reykjavík suður, á eftir Sigríði.

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV