Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Tugir selshræja á ströndum Dagestans

07.05.2021 - 04:48
Mynd með færslu
 Mynd: Aboutaleb Nadri - Wikimedia Commons
Að minnsta kosti 170 selahræ hafa fundist á ströndum sjálfstjórnarhéraðsins Dagestan við Kaspíahaf í Rússlandi síðustu daga. Selategundin er í útrýmingarhættu. Al Jazeera hefur eftir sjávarlíffræðingnum Viktor Nikiforov að ýmsar ástæður geti legið að baki dauða selanna.

Mögulega sé loftslagsbreytingum um að kenna, verksmiðjumengun gæti hafa drepið þá eða að þeir hafi flækst í netum. Hann segir að það taki um ár að rannsaka dauða selanna gaumgæfilega. 

Að sögn AFP fréttastofunnar ætlar fiskistofa Norður-Kákasus að senda rannsóknarnefnd til að kanna málið. Sú nefnd er aðeins send af stað ef grunur leikur á alvarlegum veiðiglæpum.

Áratugum saman hefur selastofni Kaspíahafs staðið ógn af ofveiðum og áhrifum mengunar frá iðnaði. Sérfræðingar telja um 70 þúsund seli nú í hafinu, en þeir hafi verið yfir milljón í byrjun síðustu aldar. Olíu- og gasmengun, ásamt lækkandi vatnsborði vegna loftslagsbreytinga, ógna lífríki þeirra enn frekar.

Í desember síðastliðnum var einnig greint frá fjölda selshræja á ströndum Dagestan. Þá fundust um þrjú hundruð talsins.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV