Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þetta eru ekki bara skrímsli, þetta eru líka góðir menn

Sólborg Guðbrandsdóttir
 Mynd: RÚV - Skjáskot
Ný #metoo-bylgja er risin og hún er frábrugðin þeirri fyrri. Aðgerðasinnar segja að sá fjöldi kvenna sem hefur greint frá kynferðisofbeldi síðustu daga, sýni hversu alvarlegur vandinn er. Tími sé kominn til að afnema skrímslavæðinguna sem hefur fylgt umræðu um ofbeldi.

Samfélagsmiðilar loga. Fjöldi kvenna hefur sagt þar frá kynferðisofbeldi sem þær hafa verið beittar. Þetta kemur í kjölfar máls fjölmiðlamannsins Sölva Tryggvasonar og viðbragða við því en hann hefur verið kærður fyrir líkamsárás og kynferðislegt ofbeldi gegn konum.

Þetta er frábrugðið #metoo-bylgjunni sem hófst 2017, þá sögðu konur yfirleitt nafnlaust frá reynslu sinni og gjarnan í hópum, en núna koma þær fram undir nafni á sínum eigin samfélagsmiðlasíðum. 

„Ég held að það sé ofboðslega erfitt að stíga fram og segja frá svona reynslu undir nafni,“ segir Sólborg Guðbrandsdóttir fyrirlesari og aðgerðasinni. „En það kannski sýnir okkur hversu alvarleg staðan er; að konur upplifi að þær vilji eða þurfi að gera þetta. Ég held að konur séu komnar með nóg af því að þurfa að rífa upp svona vond trauma sem þær hafa upplifað til að fá fólk til að trúa þeim.“

Undanfarið hafa fjölmargir karlar stigið fram til stuðnings konunum. „Mér finnst að ég sé að sjá meira af því að þeir séu að axla ábyrgð,“ segir Sólborg.

Undir þetta tekur Þorsteinn V. Einarsson, ritstjóri Karlmennskunnar. „Karlar eru að stíga fram og í rauninni taka einhvers konar ábyrgð á gjörðum sínum og hegðun Sem er frábrugðið því sem var í #MeToo fyrir nokkrum árum síðan. þar sem þetta voru eingöngu frásagnir kvenna.“

Þorsteinn segir að eitt af því sem einkenni umræðuna núna sé að gerendur ofbeldis geti verið alls konar. „Þetta eru ekki bara skrímsli þó að þeir geri hluti sem við viljum bara eigna skrímslum. Þetta eru líka góðir menn, þetta eru líka feður, vinir okkar, fjölskyldumenn. Þetta eru frægir og þekktir menn, þetta eru allskonar menn sem geta beitt ofbeldi. Og það kann vel að vera að sumir af þeim mönnum sem eru á bak við þær sögur sem konur eru núna að lýsa séu ekki meðvitaðir um að þeir hafi beitt ofbeldi. En það breytir því hins vegar ekki að við þurfum að taka ábyrgð á þessu.“