Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sekta fyrir nagladekk í borginni eftir helgina

07.05.2021 - 09:05
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ætlar að byrja að sekta fyrir notkun á nagladekkjum frá og með næsta þriðjudegi, 11. maí. Sektin fyrir notkun nagladekkja getur numið allt að 80 þúsund krónum.

Samkvæmt reglum er bannað að nota nagladekk frá 15. apríl til 31. október nema aðstæður gefi tilefni til annars. Lögregla hefur ekki gripið til sekta hingað til. Lögreglu hefur borist nokkur fjöldi fyrirspurna um hvenær byrjað verður að sekta. 

„Því er til að svara að ökumenn þessara bifreiða mega búast við afskiptum lögreglu vegna þessa frá og með nk. þriðjudegi, eða 11. maí. Rétt er að minna á að sekt fyrir hvert nagladekk hækkaði úr 5 í 20 þúsund fyrir þremur árum og því getur sektin numið alls 80 þúsund,“ segir í tilkynningu lögreglunnar frá því í vikunni.

Á vefsíðu FÍB kemur fram að seinustu daga hafi verið nokkur erill á dekkjaverkstæðum og viðbúið að svo verði áfram næstu daga.