Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Segir sameiningu skattrannsóknaembætta af hinu góða

07.05.2021 - 12:55
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Fjármálaráðherra segist sannfærður um að sameining embætta skattrannsókna sé af hinu góða og einfaldi skattrannsóknir. Fjöldi jákvæðra umsagna hafi borist við frumvarpið. Hann vísar gagnrýni fyrrverandi ríkisskattstjóra á bug.

Frumvarp Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra um sameiningu skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra varð að lögum í apríl. Þar var meðal annars höfð hliðsjón af dómum mannréttindadómstóls Evrópu gegn íslenska ríkinu, þar sem það var dæmt fyrir að refsa í tvígang fyrir sama skattalagabrotið.

Við breytinguna varð skattrannsóknarstjóri eining innan embættis ríkisskattstjóra og allir starfsmenn færðust þangað yfir. Fyrrverandi ríkisskattstjóri hefur sagt að breytingin veiki stöðu skattrannsókna. Bjarni Benediktsson vísar þeirri gagnrýni á bug og segir bæði jákvæðar og neikvæðar umsagnir hafa borist vegna frumvarpsins.

 

„Það voru margar mjög jákvæðar, sterkar umsagnir í þessu ferli og í frumvarpinu sjálfu er gerð grein fyrir öllum aðdraganda þessa máls með sannfærandi hætti sýnt fram á að þessi breyting muni vera til þess að styrkja þennan málaflokk og það er ætlunin með þessu máli,“ segir Bjarni.

Þarf að breyta reglum eða lögum svo að héraðssaksóknari geti rannsakað þessi stærri brot?

„Ég er þeirrar skoðunar að hér sé komin umgjörð fyrir stærri málin þannig að þau fari inn á það borð þegar það á við og eftir atvikum komi aftur til skattrannsóknar ef málum lýkur þar með tilteknum hætti eins og rakið er í lögunum en allt er þetta gert til að koma í veg fyrir að fólk þurfi að sæta tvöfaldri refsinsing, Við viljum auka skilvirni, skerpa línur og það finnst mér hafa tekist vel,“ segir Bjarni.