Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Sáttafundur deiluaðila í Kjarnaskógi gekk vel

07.05.2021 - 11:08
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Sáttafundur var haldinn í deilu hagsmunahópa um útivistarsvæðið í Kjarnaskógi á Akureyri í vikunni. Hlið, sem setja á upp á svæðinu, hafa valdið deilum milli þeirra nýta svæðið. Framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga sagðist í viðtali við fréttastofu fyrr í vikunni óttast að hliðin gætu valdið slysum. Hann ætlar þó að una niðurstöðu bæjarins.

Sagði hliðin geta skapað úlfúð

Skógræktarfélag Eyfirðinga, sem sér um rekstur útivistarsvæðisins í Kjarnaskógi á Akureyri, sendi frá sér tilkynningu á Facebook um helgina. Þar mótmælir félagið kröftuglega áformum bæjaryfirvalda um að setja upp hlið við fjölfarinn göngustíg. Hliðin, sem ætluð eru til að auðvelda rekstur á hrossastóði, eru sögð skapa úlfúð og árekstra milli hópa og er þeim líkt við vopnaleitarhliðin á Keflavíkurflugvelli. Færslan hefur vakið mikil viðbrögð og sitt sýnist hverjum.

Málið á réttri leið

Guðríður Erla Friðriksdóttir, sviðsstjóri umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar segir í skriflegu svari til fréttastofu að málið sé nú á réttri leið og vonast hún eftir því að uppsetning á hliðunum klárist sem fyrst. Fundað hafi verið í deilunni fyrr í vikunni. Á fundinn mættu fulltrúar allra notenda svæðisins auk framkvæmdarstjóra skóræktarfélagsins. 

„Ég held að allir hagsmunahópar séu sammála um að tryggja sem best öryggi allra á gatnamótunum. Það eru alltaf ólíkar skoðanir á hvaða lausn á að velja en ég held að málið sé á réttri leið og vonandi klárast uppsetning sem fyrst,“ segir Guðríður. 

Sjá einnig: Dýrin í Kjarnaskógi ekki lengur vinir

Sáttafundur gekk vel

Dagbjartur Halldórsson, formaður Hestamannafélagsins Léttis sagði í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í morgun að félagið hafi farið þess á leit við bæjaryfirvöld að þau leystu málið. „Við óskuðum eftir því að bærinn myndi leysa málið. Við myndum treysta bænum fullkomlega fyrir því. Það sem að bærinn hyggst gera er niðurstaða bæjarins en ekki okkar krafa. Það yrði bara gert af öryggissjónarmiðum fyrir hinn almenna hestamenn.“

Dagbjartur segir fundinn hafa gengið vel. „Bærinn kynnti þessi áform sín og þetta var rætt fram og til baka og niðurstaðan var sú að það voru allir samþykkir þessu nema framkvæmdarstjóri og formaður Skógræktarfélagsins.“ 

Þannig að það er enn kergja? 

„Nei, framkvæmdarstjóri Skóræktarfélagsins samþykkti að lúta þessari niðurstöðu sem bærinn ætlaði að gera. Enda voru allir notendur sem um þetta svæði fara, það voru allir sammála um að þetta væri góð framkvæmd.“