Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Nýi eigandi Nóa Síríus

07.05.2021 - 11:00
Mynd: NRK / NRK
Norska fyrirtækið Orkla hefur keypt Nóa Síríus og bætt íslensku sælgætisframleiðslunni við fjölbreytt safn fyrirtækja á neytendamarkaði. Vörumerkin í safninu eru vel á þriðja hundrað í þremur heimsálfum. En hver stendur að baki þessu framsækna fyrirtæki og hverfa nú íslensku páskaeggin og suðusúkkulaðið af markaði?

Norðmenn opna 30 milljónir makríldósa á ári frá fyrirtæki sem heitir Orkla. Og ekki bara 30 milljónir dósa. Það er sama hvort menn draga frosna pitsu upp úr frystikistu, gæða sér súkkulaði frá Þrándheimi, kaupa pakka af þvottaefni, annan af brúnni sósu og poka af kartöfluflögum og bæta við það kexpakka eða krukku af niðursoðnum rauðrófum – alltaf stendur Orkla á bakhliðinni. 

Kaupa Nóa Síríus

Núna hefur norska fyrirtækið Orkla keypt Nóa Síríus og tekur yfir reksturinn með útsendum forstjóra. Þessi kaup eru dæmigerð fyrir Orkla og eigandann, Stein Erik Hagen. Vörumerkin í safni hans eru mörg og margbreytileg. Þau eiga það sameiginlegt að vera gömul og rótgróin á sínum heimamarkaði. Hönnunin er mismunandi og enginn einn litur eða eitt útlit einkennir vöruna frá Orkla. En þó er allt fágað og fínt, jafnvel fínna en það var í gamla daga þegar þessi vörumerki voru í eigu fjölskyldufyrirtækja víða um land og víða um lönd. Því Orkla breytir aldrei vörumerkjum og selur gamalgróna vöru í um það bil sömu umbúðum og alltaf hefur verið gert. Ekkert nýtt sést nema Orkla-merkið og tilheyrandi stjarna á bakhliðinni. Það sameinar ólíka vöruflokka af dagvöru í öllum búðum í Noregi og víða um heim. 

Er bara kaupmaður

Orkla er alls staðar nærri í Noregi þegar neytendur raða í innkaupakörfur sínar og að baki stendur kaupmaðurinn Stein Erik Hagen. Hann leggur alltaf áherslu á að hann sé kaupmaður – ekki fjárfestir eða neitt svoleiðis. Bara kaupmaður og byrjaði rétt um tvítugur að basla við að koma á fót lágvöruverslun undir nafninu Rimi, græddi töluvert á því og seldi svo sköpunarverkið. 
Stein Erik Hagen er þekktur maður í norsku þjóðlífi og hefur verið það í meira en 40 ár. Hann er alltaf áberandi fínn í tauinu, einn ríkasti maður landsins, og fyrir sex árum kom hann út úr skápnum í sjónvarpsþætti og sagðist vera samkynhneigður. 

Lasse Ruud-Hansen,  sem tekur við sem forstjóri Nóa Síríus í ágúst.

Þykir framsækinn

Núna hefur Nói Síríus bæst í safn kaupmannsins. Þar eru yfir 200 vörumerki fyrir í þremur heimsálfum. Stein Erik Hagen kaupir líka í útlöndum og þessi kaup á Íslandi eru dæmigerð fyrir hann og Orkla. Og hann hefur mestan áhuga á dagvöru til sölu í smásöluverslunum, sama hvort það er sælgæti, kex, þvottaefni, álegg eða frosnar pitsur. 
Viðskiptahugmyndin virðist einföld: Kaupa viðurkennd vörumerki með trausta stöðu á markaði, pússa umbúðirnar smá og hagræða smá í rekstri en svo kemur að markaðssetningunni. Þar er Stein Erik á heimavelli. Hann þykir afar framsækinn þegar kemur að sölu á framleiðslunni. 

Áttu Járnblendið á Grundartanga

Kaupmenn fá tilboð um að kaupa allan pakkann af honum, fjölbreytt úrval af viðurkenndri vöru og fá jafnvel afslátt. En keppinautar á smásölumarkaði verða ef til vill að sjá á eftir sinni vöru upp í efstu hillur eða niður í þær neðstu. Þetta er baráttan um hillumetrana og sú er sérgrein Orkla og kaupmannsins bak við búðarborðið þar. 
Orkla er í raun gamalt stóriðju- og orkufyrirtæki með meira en 300 ára sögu að baki og var umsvifamikið á allt öðrum vettvangi en nú. Orkla átti t.d. Elkem sem átti Járnblendið á Grundartanga. 

En eftir að Stein Erik Hagen eignaðist ráðandi hlut í félaginu fyrr á þessari öld breytti hann því í eignarhaldsfélag á neytendamarkaði. 

Metinn á 350 milljarða

Í Noregi er deilt á Stein Erik Hagen fyrir að hika ekki við að flytja framleiðslu úr landi og til láglaunalanda. Hinn vinsæli makríll í tómat er t.d. lagður í dósir í Litáen. Þó þykir þetta vera að norskasta af öllum norskum dósamat. Og hann er ötull stuðningsmaður stjórnmálaflokkanna sem standa að hægristjórn Ernu Solberg og jafnframt eindreginn andstæðingur flokkanna til vinstri og skattastefnu þeirra. Kaupmaðurinn reynir að hafa áhrif á pólitíkina. 
En árangur hans í viðskiptum er ótvíræður. Veltan er nú talin yfir 700 milljarðar, mælt í íslenskum krónum á ári, og bandaríska tímaritið Forbes telur að kaupmaðurinn eigi sjálfur jafnvirði um 350 milljarða íslenskra króna.

Pistill sem Gísli Kristjánsson í Osló flutti í Speglinum.