Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Litríkir hverafuglar til sýnis á Garðatorgi

07.05.2021 - 13:43
Mynd: RÚV / RÚV
Glatt var á hjalla á Garðatorgi í Garðabæ síðastliðinn þriðjudag þegar fyrsta Barnamenningarhátíð bæjarins var sett við hátíðlega athöfn. Það voru sjöttu bekkingar úr Álftanesskóla sem opnuðu sýninguna Hverafuglar á bjargi ásamt Gunnari Einarssyni bæjarstjóra.

Allir nemendur á miðstigi í skólum Garðabæjar hafa fræðst um íslenska leirlist á sýningunni Deiglumór frá því í febrúar. Í framhaldinu unnu börnin fugla í leir byggða á því sem þau sáu og á frásögn safnkennara um hverafugla í þjóðsögum.

Um 600 fuglar eru til sýnist á yfirbyggðu torginu í Garðabæ. Hverafugl er þjóðsagnavera sem sagt er að hafi haldið sig í hverum, átti að geta synt á sjóðandi vatni og jafnvel stungið sér á kaf í bullandi hverina.

Þessa viku hafa nemendurnir tekið þátt í leiðangri um sýninguna Deiglumó, hafa stundað stærðfræðipælingar í Hönnunarsafninu, farið í ritsmiðju með Gunnari Helgasyni rithöfundi og stigið dans í arabísku danspartýi.