Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Frumleg frumraun um tímaflakk og veröld fulla af rusli

Mynd: - / Þjóðleikhúsið

Frumleg frumraun um tímaflakk og veröld fulla af rusli

07.05.2021 - 13:40

Höfundar

Kafbátur er nýtt íslenskt barnaleikrit eftir Gunnar Eiríksson, sem sýnt er í Þjóðleikhúsinu. Þetta er frumleg frumraun, segir Snæbjörn Brynjarsson gagnrýnandi, „með persónum sem eru nægilega kómískar til að fá krakka og fullorðna til að hlæja.“

Snæbjörn Brynjarsson skrifar:

Um borð í kafbáti leita síðustu manneskjurnar, stúlkan Argentína, faðir hennar, Pabbi, og hrökkállinn Lúkar, að tímakubbi í von um að geta ræst tímavélina sem er um borð. Takist það geta þau farið aftur til betri tíma, þegar móðir stúlkunnar, eiginkona Pabba, var enn þá hjá þeim. Argentínu, sem alist hefur upp um borð í kafbátnum, grunar ekki að það gæti verið jafnvel enn meira sem hafi glatast með tímanum en móðir hennar. Fyrir henni hefur veröldin ávallt verið á bólakafi og andrúmsloftið fyrir ofan vatnsyfirborðið baneitrað, en eftir því sem á líður leiðangurinn og fleiri persónur bætast inn í heiminn verður erfiðara fyrir Pabba að viðhalda blekkingarleiknum.

Þetta er í grófum dráttum sögusvið Kafbátsins, en þetta nýlega leikrit eftir Gunnar Eiríksson í leikstjórn Hörpu Arnardóttur var sett á svið í Kúlu Þjóðleikhússins eftir að hafa borið sigur úr bítum í leikritasamkeppni með 150 innsendum leikverkum. Gunnar kemur á óvart sem sigurvegari í samkeppninni því hann er alinn upp í Noregi, og í leikskrá er Bergsveinn Birgisson rithöfundur skráður fyrir þýðingu, sem er vitaskuld ekki verra. Vinsælustu barnaleikrit Íslandssögunnar eru einmitt frá Noregi; Kardemommubærinn og Dýrin Hálsaskógi eftir Thorbjörn Egner sem eru sennilega þær sýningar sem Þjóðleikhúsið hefur oftast sett á svið. Gunnar er fæddur og alinn upp í Tromsø, hann lærði leiklist í háskólanum í Verdal í Norður-Þrændalögum og hefur fengist við leiklist í Noregi og virðist hafa gengið ágætlega, í það minnsta gætu sumir sjónvarpsáhorfendur kannast við hann úr spennuþáttaröðinni Twin.

Leiksýningin er fyrir ungt fólk og eins og alltaf er erfitt að áætla nákvæmlega hvaða aldri hún hentar. Ferðafélagi minn á sýninguna var fimm ára, og hún áttaði sig sennilega ekki alveg fullkomlega á sögunni sem var sögð, en leiddist þó aldrei svo mjög ungir áhorfendur ættu að hafa gaman af þó svo líkast til henti sýningin best grunnskólanemendum alveg fram í unglingadeild. Heimurinn er framandi og óvenjulegur, sögusviðið eins og samblanda af ævintýrum kapteins Nemós sem Jules Verne skrifaði um í Sæfaranum, og framtíðardystópíu. Leikmyndina gerði Finnur Arnar Arnarson og sýnir hún innviði kafbátsins, sem svo sannarlega ber þess merki að vera samsettur af uppfinningafólki úr alls konar brotajárni, meðal annars hljóðfærum. Stjórnborðið er gamall analóg skemmtari eða einhvers konar orgel, gömul túba hefur verið notuð til að búa til vatnshreinsibúnað, harmoníkka er notuð til að stýra vatns- og súrefnisdælum. Þetta er notuð framtíð, ekki glampandi ný eins og í Star Trek, heldur pínu ryðguð eins og í Stjörnustríði, en hugtakið sem sennilega best fangar prýðilega heppnaða leikmynd Finns er sennilega gufu-pönk. Það er að segja sambland af nítjándu aldar iðn-nostalgíu og fútúrískum pælingum.

Stúlkan Argentína, leikin af Birgittu Birgisdóttur, er tíu ára gömul og hefur lengi saknað móður sinnar. Hún er við það að gefast upp á leitinni að tímakubbnum, en faðir hennar, leikinn af Birni Inga Hilmarssyni, heldur í vonina. Þau eru frekar krúttleg feðgin, og Björn mjög föðurlegur með bústið yfirvaraskegg sitt, en með þeim um borð er eins og áður sagði hrökkállinn Lúkar sem knýr bátinn með rafmagni sínu. Þröstur Leó Gunnarsson var í þessum silfraða, rafmagnaða ham, með háan hanakamb, og hélt uppi miklu af fjörinu um borð. Hann var í miklu uppáhaldi hjá fimm ára ferðafélaga mínum, sem ég skildi afar vel, því Þröstur er mjög fær leikari hvort sem hann er í dramatískum verkum eða gríni, en hinar aukapersónurnar sem bættust í hópinn voru einnig skemmtilega skondnar. Það er víkingakonan Steinunn Langöxi sem er í mikilli persónulegri krísu vegna þess að eftir árþúsundir frosin inni í jökli hefur hún glatað öxinni, sem er stór hluti af sjálfsmynd hennar, og vélmennadrengurinn Anon sem er prógrammeraður til að vingast við fólk. Guðrún Gísladóttir er frábær í hlutverki Steinunnar. Við Íslendingar höfum því miður ekki gert margar víkingamyndir síðan á níunda áratugnum en það er löngu kominn tími á að sjá Guðrúnu leika í einhvers konar þannig períóðumynd því hún myndi smellpassa í þannig mynd. Steinunn Langöxi er kómískur karakter, sem er góð inn við beinið en á skjön við umhverfi sitt og gagntekin af því að eiga hluti, og verður þannig óbeint táknmynd fortíðar mannkynsins. Mannkyns sem nú hefur eyðilagt jörðina. Anon er einnig nokkuð kómískur og Kjartan Darri Kristjánsson stendur sig vel sem vinalegt vélmenni. Ef sviðsmynd Finns vekur hugrenningartengsl við kaptein Nemó þá mætti vel segja að persóna Anons fái mann til að hugsa eilítið til kvikmyndarinnar AI sem Steven Spielberg leikstýrði upp úr handriti Stanleys Kubricks, en þar fylgjumst við með vélmennum sem eru prógrammeruð til að veita manneskjum ást og félagsskap, og sjáum á endanum eitt vélmennanna lifa mannkynið af.

Það er snúið að segja frá leikritinu og rökstyðja skoðun mína á því án þess að segja of mikið um innihald þess. Aðalsöguhetjur okkar eru manneskjur sem búa í veröld þar sem hafið er fullt af rusli og loftið er fullt af eitri, og það eina sem þeim dettur í hug er að fara aftur til fortíðarinnar. Þó svo hugmyndin sé að snúa aftur til fortíðarinnar til að laga heiminn áður en það er um seinan þá má velta fyrir sér hvort það séu réttu endilega skilaboðin, hvort það megi ekki byggja betri heim án þess að leita aftur til fortíðarinnar.

Kafbátur er þó frumleg frumraun, með persónum sem eru nægilega kómískar til að fá krakka og fullorðna til að hlæja, en þó án þess að detta í leiðinda prumpuhúmor eins og margar barnasýningar gera til að teygja lopann. Gunnar á vonandi eftir að skrifa fleiri leikrit fyrir íslenskt svið eða jafnvel leika á því. Harpa og leikhópurinn náðu að gera næma og fallega sýningu úr handriti með þunnu plotti, en skemmtilegum persónum, og skapa töfrandi ferðalag um neðansjávardjúp með skemmtilegum hljóðheimi, vel útfærðum myndböndum og fallegri sviðsmynd.

Tengdar fréttir

Leiklist

Nýtt ævintýri sem hvetur unga sem aldna til umhugsunar