Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Brexit bergmál í breskum kosningum

07.05.2021 - 17:47
Mynd: Epa / epa
Það var kosið víða í gær í Bretlandi, í bæja- og sveitastjórnir, kosið um borgarstjóra í stærri borgum og á þingin í Skotlandi og í Wales. Það tekur einhverja daga að telja en það eru úrslitin í einu kjördæmi sem fanga mesta athygli í dag.

Fyrirsagnir dagsins: sigur Íhaldsflokksins, ósigur Verkamannaflokksins

Sigur Íhaldsflokksins, ósigur Verkamannaflokksins – þetta eru helstu fyrirsagnir dagsins í Bretlandi eftir bæjar- og sveitastjórnarkosningar gærdagsins, auk kosninga til þinganna í Skotlandi og Wales. Úrslitanna í heild ekki að vænta fyrr en eftir helgi. Mesta athyglin beinist að einum aukakosningum, um þingsæti norður í landi.

Boris Johnson forsætisráðherra vildi ekki segja of mikið undir hádegi en horfurnar væru góðar. Stjórnin hefði einbeitt sér að forgangsmálum sínum og fólksins og að hífa Bretland upp eftir heimsfaraldurinn.

Horfur Skoska þjóðarflokksins ekki alveg eins góðar og hann vonaði

Í Skotlandi koma úrslitin hægt og bítandi. Kosningaþátttaka aukist verulega, um fimm eða tíu prósent frá þingkosningunum 2016. Skoski þjóðarflokkurinn fær vísast flesta þingmenn en kannski ekki hreinan meirihluta eins og hann vonaði.

Margt bitur fyrir Verkamannaflokkinn

Íhaldsflokkurinn í Skotlandi gæti áfram verið næststærsti flokkurinn þar. Biturt fyrir  Verkamannaflokkinn að verða aftur þriðji í Skotlandi, þar sem hann naut löngum mikils fylgis, allt þar til Skoski þjóðarflokkurinn náði forystunni 2007.

Og enn frekar áhyggjusamlegt fyrir Verkamannaflokkinn að kosningaþátttaka í borgarstjórakosningum höfuðborgarinnar virðist lág. Frambjóðandi flokksins, Sadiq Khan virtist öruggur um endurkjör en forskotið á Shaun Bailey frambjóðanda Íhaldsflokksins líklega minna en virtist. Og svo er það tapið í Hartlepool. Forðum tryggt vígi Verkamannaflokksins féll, Jill Mortimer frambjóðandi Íhaldsflokknum sigraði. Mortimer sagðist stolt af því að vera fyrsti íhaldsþingmaður kjördæmisins í 57 ár og fyrsta konan kjörin þar.

Hartlepool: sigursaga Íhaldsflokksins í hnotskurn

Hartlepool sýnir í hnotskurn árangur Íhaldsflokksins. Undir forystu Borisar Johnsons býður flokkurinn pólitískt bland í poka af því kjósendur eru ekki lengur uppteknir af hægri eða vinstri. Búa ekki lengur á einum eða öðrum væng pólitíska litrófsins, vilja bara eitthvað sem virkar. Pólitískum hreinlífismönnum, og þeir eru líka til í þingflokki Íhaldsflokksins, finnst þetta anga af pópulisma en sem stendur svínvirkar þessi boðskapur.

Hartlepool: ósigursaga Verkamannaflokksins í hnotskurn

Hartlepool er auðvitað aðeins eitt kjördæmi, eitt þingsæti af 650 þingsætum. En úrslitin eru líka vandi Verkamannaflokksins í hnotskurn og sá vandi ákaft ræddur í dag.

Þarna var einu sinni miðstöð skipasmíða og sterk sjálfsvitund íbúanna sú að sem verkamenn kysu þeir auðvitað Verkamannaflokkinn. Skipasmíðarnar eru löngu horfnar. Og núna líka kjósendurnir sem áður kusu Verkamannaflokkinn. Þarna var þó kosningaþátttakan aðeins 42 prósent.

Tapið séð af hægri væng Verkamannaflokksins

Nýi Verkamannaflokkurinn með sína hægri-kratastefnu var sjósettur af Tony Blair og fleirum fyrir kosningarnar 1997. Flokknum tókst þá bæði að höfða til fyrrum kjarnakjósenda en líka krækja í menntafólk og borgarbúa sem áður kusu Frjálslynda demókrata og Íhaldsflokkinn.

Náinn samstarfsmaður Blairs, Peter Mandelson, fyrrum þingmaður Hartlepool, skrifaði í morgun tapið á reikning Covid og Corbyns, hins vinstrisinna leiðtoga flokksins þar til í fyrra. Í síðustu ellefu kosningum hefði flokkurinn tapað, nema þeim þremur sem Blair vann. Skilaboð Mandelsons voru: reynið ekki aftur ysta vinstrið.

Starmer hrífur ekki kjósendur líkt og Johnson

Fyrir utan boðskapinn, vinstrið og hægrið, þá er ljóst að á ári sínu sem leiðtogi Verkamannaflokksins hefur Keir Starmer ekki slegið í gegn. Eitt lykilloforð Íhaldsflokksins er að jafna og bæta stöðu Norður-Englands, þar sem flokkurinn hefur hirt fyrrum tryggt fylgi Verkamannaflokksins. Enginn veit hvað felst í loforðinu.

Það veit heldur enginn hvað felst í margendurteknu loforði Starmers um breytingar. Starmer tapar á óljósu loforði, Johnson vinnur á óljósu loforði. Fátt klippt og skorið í pólitíkinni en nokkuð ljóst að Starmer hrífur ekki kjósendur með sama hætti og Johnson.

Brexit bergmálar enn

Brexit er gengið yfir en úrganga Breta úr Evrópusambandinu bergmálar enn. Íhaldsflokknum vegnar vel á landsvæðum sem kusu Brexit, Verkamannaflokknum á svæðum sem kusu ESB-aðild. En fleiri vildu fara en vera svo Íhaldsflokkurinn græðir enn á Brexit og situr nú einn að þessu fylgi, missir ekki lengur hluta þess til hægri jaðarflokksins Ukip.

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2016 lærðu fyrrum kjósendur Verkamannaflokksins að þeir gætu alveg kosið með Íhaldsflokknum. Og gætu svo stigið skrefið til fulls og kosið flokkinn.

Starmer: þetta snýst ekki um fólk

Keir Starmer sást ekki fyrr en síðdegis, sagði þá að úrslitin snerust um langtum fleira en fólk. – Kemur í ljós hvort Verkamannaflokkurinn er sáttur við þá greiningu leiðtogans.