Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Æskilegt að sumarbústaðahverfi sameinist í klöppukaupum

07.05.2021 - 08:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Almannavarnir lýstu í gær yfir óvissustigi vegna hættu á gróðureldum á svæðinu frá Eyjafjöllum í suðri að sunnanverðu Snæfellsnesi í vestri. Nú þegar sumarbústaðaferðir og sumarfrí nálgast er mikilvægt að hafa þessa hættu á bak við eyrað.

Mikill sinueldur kviknaði í Heiðmörk í vikunni þar sem eldurinn fór yfir rúmlega 60 hektara svæði. Fleiri eldar hafa kviknað á höfuðborgarsvæðinu, seinast í nótt en þar náði nágranni að slökkva eldinn með snörum viðbrögðum. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir almannavarnir telja ástæðu til að auka viðbúnaðarstig.

„Það er út af þessari tíð. Það er ekki búinn að koma dropi úr lofti á þessu svæði í yfir 3 vikur,“ segir Jón Viðar.

Ekki er útlit fyrir að veður breytist mikið næstu daga. Um helgina og næstu vikur má reikna með að margir leggi land undir fót og dvelji í sumarhúsum og í útivist af ýmsu tagi. Þar þarf að huga vel að eldvörnum.

„Það sem er mikilvægast í þessu er að reyna að koma í veg fyrir eld. Þá þarf að fara gífurlega varlega með eld, reykingar, grillun og allt annað sem tengist því að vera með opinn eld. Menn þurfa  að fara mjög varlega og best liggur við að sleppa því í einhvern tíma,“ segir Jón Viðar.

Verði fólk vart við eld er mikilvægt að láta vita með því að hringja í 112 og greina frá því hvar eldurinn er og lýsa staðsetningu og staðháttum. 

„Búnaður skiptir líka miklu máli, þá eru klöppur sem við slökkviliðsmenn notum, sem er svona eins og stór laufhrífa og það þarf að vera töluvert til af því. Það er hægt að sameinast um þetta. Hverfið getur keypt saman. Það er nauðsynlegt að hver bústaður eigi eina. Vatn skiptir máli, er gróður alveg upp að bústaðnum og ekkert frítt svæði í kring? Svo er stóra stóra málið að fara varlega, passa að maður lokist ekki inni og athuga hvort að það sé einhver önnur leið út úr hverfinu, eða bara ein leið inn og út úr hverfinu, svo að þú lokist ekki inni ef eitthvað kemur upp á,“ segir Jón Viðar. 

Gróðureldar geta einnig kviknað í þéttbýlinu eins og hefur sýnt sig. Jón segir fólk ekki síður þurfa að fara með gát þar.

„Algjörlega, og þá gilda bara sömu reglur. Í þéttbýlinu er slökkviliðið kannski fljótara á staðinn og sér um þetta en þá er númer eitt tvö og þrjú að láta vita fljótt. Við erum með nokkra bruna núna sem hafa kviknað út frá því að menn hafa skotið frá sér sígarettustubb, sem menn telja sig vera búnir að slökkva í. Það þarf ekki að vera flóknara en það,“ segir Jón Viðar.