Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

25 dánir í mannskæðustu lögregluaðgerð í sögu Ríó

epaselect epa09181568 Members of the Police carry out a police operation against a gang of drug traffickers, in a favela of Rio de Janeiro, Brazil, 06 May 2021. At least 25 people died, including a police officer, and another 5 were injured, two of them when they were mobilizing in the subway, during a police operation on 06 May against a gang of drug traffickers in a Rio de Janeiro favela, local media reported.  EPA-EFE/Andre Coelho
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Tuttugu og fimm lágu í valnum eftir lögregluaðgerðir gegn eiturlyfjasölum í fátækrahverfi Rio de Janeiro í Brasilíu í gær. Einn hinna látnu er lögreglumaður en hinir tuttugu og fjórir voru að sögn lögreglu með réttarstöðu grunaðra. AFP fréttastofan hefur eftir mannréttindasamtökum og öðrum sérfræðingum að lögreglan hafi fá gögn til að sanna það.

Íbúar í hverfinu vöknuðu eldsnemma í gærmorgun við sprengingar, skothvelli og læti í þyrlum sem sveimuðu yfir Jacarezinho hverfinu í norðanverðri Rio de Janeiro. Fjölmennur hópur lögreglumanna sást fara inn í hverfið, og skildu eftir sig blóðuga slóð. Íbúar segja lík hafa legið í blóðpollum á gangstéttum í hverfinu, og nokkur hafi verið fjarlægð af lögreglu. Aðgerðin er sú mannskæðasta í sögunni að sögn AFP.

Að sögn lögreglunnar beindust aðgerðirnar gegn gengi sem talið er að fái börn til að vinna fyrir sig. Þar á meðal eru börnin látin flytja eiturlyf, fremja rán, gera árásir og fremja morð. Lögreglan segir að heimild til að hlera samskiptabúnað grunaðra hafi hjálpað lögreglu við að bera kennsl á yfir tuttugu menn úr genginu. Þeir hafi verið búnir að koma sér upp stórfelldu vopnabúri fyrir nokkur hundruð manns.

Réttindasamtök í Brasilíu velta þó fyrir sér hvers vegna lögreglan noti þessi rök fyrir aðgerðinni, og hvað þá á þessum tíma. Það að börn séu fengin til að vinna fyrir gengin er engin nýlunda í fátækrahverfum borgarinnar. Þá eru svona stórfelldar aðgerðir lögreglu í fátækrahverfum bannaðar á meðan kórónuveirufaraldrinum stendur samkvæmt úrskurði hæstaréttar Brasilíu.

Yfir 1.200 voru drepnir af lögreglu í Rio de Janeiro fylki Brasilíu í fyrra samkvæmt tölum ISP, samtaka um almannaöryggi. Það voru þó nokkuð færri en árið áður, þegar yfir 1.800 voru drepnir. Í Bandaríkjunum öllum voru rúmlega 1.100 drepnir af lögreglumönnum í fyrra. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV