Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Vonandi hægt að aflétta nokkuð hratt á næstu vikum

06.05.2021 - 11:19
Mynd: Almannavarnir / Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalækni segist bjartsýnn á að hægt sé að slaka nokkuð hratt á sóttvarnaaðgerðum innanlands í næstu viku. Helsta áhyggjuefnið í faraldrinum nú sé fjöldi ferðamanna á leið til landsins, sem er meiri en gert var ráð fyrir.

„Held að við séum á nokkuð góðum stað og þetta gefur vonandi tilefni til að aflétta nokkuð hratt núna á næstu vikum hér innanlands, en áætlað er að reglugerð um næstu afléttingar taki gildi í næstu viku,“ sagði Þórólfur á upplýsingafundi í dag.

Tvö kórónuveirusmit greindust innanlands í gær og greindust bæði smitin í sóttkví. Tuttugu og átta greindust innanlands síðustu viku og voru tveir utan sóttkvíar. Fækkað hefur í sóttkví en enn megi búast við að um fimm prósent þeirra sem eru í sóttkví eigi eftir að greinast.

Um þrjú þúsund manns komu til landsins í síðustu viku og um 20% þeirra fóru í sóttkví í sóttvarnahúsi. Helmingur farþega framvísaði vottorðum um fyrri sýkingu eða bólusetningu, en aukinn fjöldi er vegna þess að opnað var fyrir ferðalanga utan Schengen. Munar þar mest um Bandaríkjamenn.

Þórólfur segir að aukinn fjöldi ferðamanna valdi álagi við greiningu á sýnum. Nú er getan um þrjú til fjögur þúsund sýni á sólarhring. „Þetta mun kalla á breytingu á vinnulagi á landamærum sem vonandi kemur ekki niður á örygginu að halda veirunni frá landinu.“

Hann segir að þó útlitið sé gott þessa stundina, þá þurfi að halda áfram dampi í sýkingavörnum.