Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Velja milli seinni sprautu AstraZeneca eða annars efnis

06.05.2021 - 11:27
Mynd: RÚV / RÚV
Þeir sem fengu fyrri sprautu með bóluefni AstraZeneca, áður en ákveðið var að takmarka notkun þess við ákveðna hópa, og eru utan þeirra marka, geta valið um að fá seinni sprautuna með AstraZeneca eða öðru bóluefni.

Þetta sagði Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, smitsjúkdómalæknir, á upplýsingafundi almannavarna í dag. Margar spurningar hafi borist varðandi þessa breytingu, hvort það sé jafn gott að fá blandaða bólusetningu eða sama bóluefnið tvisvar.

Kamilla segir það í raun ekki vitað. Það sé enn til rannsóknar og niðurstöðu að vænta í júní. Hún ítrekar hins vegar að þó það sé ekki það sama í bóluefnaglasinu, þá bregðist líkaminn eins við bólusetningunni. 

Nokkuð hefur borið á því að fólk hefur veikst eftir að hafa fengið bóluefni Janssen. Kamilla segir það ekki koma á óvart, það sé eðlilegt og ákveðið hefði verið að nota bóluefnið fyrir alla frá 18 ára aldri, miðað við það markaðsleyfi sem bóluefnið fékk.