Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tiny rappar um fiðrildi en Karítas syngur um eilífðina

Mynd: Birta Rán / Eternity

Tiny rappar um fiðrildi en Karítas syngur um eilífðina

06.05.2021 - 16:50

Höfundar

Að venju blása ferskir og fjölbreyttir vindar í Undiröldunni þar sem boðið er upp á nýja íslenska tónlist í hverri viku. Rapparinn Tiny ríður á vaðið með nýtt lag eins og tónlistarkonan Karítas sem var að senda frá sér stóra plötu. Auk þess fá tónlistarunnendur ný lög frá Eik Haraldsdóttur, Einarindra, Hákoni, Ástu ásamt Salóme Katrínu og Thorisson og Sharlee.

Tiny – Fiðrildi

Úr undirheimum hipphoppsins sendir Egill Ólafur Thorarensen, eða Tiny, frá sér nýtt lag sem heitir Fiðrildi. Lagið er það fyrsta sem þessi fyrrum Quarashi-rappari sendir frá sér í töluverðan tíma og er unnið með þeim Isabel Gunnarsdóttur og stuðmenninu Jakobi Frímanni Magnússyni.


Hákon – Segðu já

Tónlistarmaðurinn Hákon átti nokkuð vinsælt lag í fyrra þegar hann sendi frá sér lagið Limbó. Í kjölfarið kom svo út lagið Skárra en nú gefur hann út lagið Segðu já. Hann sér sjálfur um hljóðfæraleikinn ásamt Bjarma Hreins og lagið kemur á streymisveitur 14. maí.


Karitas – Eternity

Tónlistarkonan Karítas gaf út sína fyrstu stóru plötu um mánaðamótin og heitir hún Eternity. Karitas byrjaði tónlistarferilinn sem plötusnúður og Reykjavíkurdóttir en fór fyrir tveimur árum að vinna markvíst í sínum eigin lagasmíðum og sólóferli.


Eik Haraldsdóttir – Orpheus Lyre

Tónlistarkonan Eik Haraldsdóttir hefur sent frá sér lagið Orpheus Lyre. Jóhann Haukur og hún sjálf pródúseruðu verkið sem getur seint talist venjuleg popptónlist og fetar veginn á milli klassískrar tónlistar og raftónlistar.


Einarindra – Dóttir (subliminal Remix)

Tónlistarmaðurinn Einarindra hefur sent frá sér lagið Dóttir í subliminal remixi hjá raftónlistarútgáfunni Möller Records. Þetta er önnur endurhljóðblöndunin sem Einarindra sendir frá sér á þessu ári en lagið Without You kom út fyrr á árinu.


Ásta ásamt Salóme Katrínu – Kaffi hjá Salóme

Ásta Kristín Pjetursdóttir fékk íslensku tónlistarverðlaunin fyrir plötu sína Sykurbað sem kom út árið 2018. Nú stefnir hún á útgáfu nýrrar plötu og sendir frá sér lagið Kaffi hjá Salóme þar sem þær vinkonurnar gera upp gamalt kaffiboð.


Thorisson, Sharlee – Neon Skies

Borgar Þórisson, sem kallar sig Thorisson, sendir reglulega frá sér tónlist og nú síðast lagið Neon Sky. Lagið samdi hann fyrir tveimur árum þegar hann var enn í námi á Englandi og kynntist Sharlee.