Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þakka snarræði vegfaranda að ekki fór illa

Mynd með færslu
 Mynd: Brunavarnir Árnessýslu
Tveir gróðureldar kviknuðu á svæði Brunavarna Árnessýslu í dag, en fyrri átti upptök sín við trjálund austan við Þrastarlund um klukkan tíu í morgun. Þakka megi skjótum viðbrögðum vegfaranda að ekki fór verr að sögn Péturs Péturssonar slökkviliðsstjóra.

Pétur telur að snarræði vegfarandans sem tók til við að slökkva eldinn hafi komið í veg fyrir stórslys. Hundruð sumarbústaða á svæðinu hefðu orðið eldi að bráð ef allt hefði farið á versta veg, að sögn Péturs. Allt sé skraufaþurrt og mikill eldsmatur í gróðri á svæðinu.

Eldsupptök eru ókunn en eldurinn kviknaði við göngustíg þannig að Pétur telur að ekki sé óvarlegt að álykta að eldurinn hafi kviknað af mannavöldum með einhverjum hætti. 

Talsvert björgunarlið var kallað á vettvang vegna gróðurelda hjá sumarbústaðasvæði við neðanverðan Skeiða- og Hrunamannaveg. Litlu mátti muna að eldurinn læsti sig í sumarbústað en slökkviliði tókst að koma í veg fyrir það.

Tlkynning um eldinn barst um klukkan hálf fjögur en slökkvistarfi var lokið snemma á sjöunda tímanum.  Á báðum brunastöðum tókst að væta nægilega vel í gróðri og jarðvegi þannig að ekki er talin hætta á að hann blossi upp að nýju, að sögn Péturs. 

Samkvæmt upplýsingum á Facebook-síðu Brunavarna kemur fram að síðari eldinn megi rekja til þess að verið var að vinna með slípirokk utandyra. Því vill slökkviliðið ítreka beiðni til fólks um að fara varlega með eld og aðra hitagjafa utandyra í þessari þurrkatíð sem nú er.

Pétur segir að mjög þurrt sé í veðri og ekki sé útlit fyrir annað á næstunni. Því hvetur hann til varúðar nærri gróðri þar sem eldur getur auðveldlega kviknað við þær aðstæður.

Hann brýnir jafnframt fyrir fólki til að hafa aðgát hvert með öðru og benda óhikað á ef óvarlega þykir farið.