Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Spennandi kosningar í Skotlandi

Mynd: APTN / AP
Kosið er á Bretlandseyjum í dag til margra bæja- og sveitarstjórna, og þings í Skotlandi og Wales. Um 40 milljónir Breta hafa rétt til að kjósa í kosningum dagsins. Athyglin beinist helst að þingkosningunum í Skotlandi þar sem kannanir sýna að Skoski þjóðarflokkurinn, SNP, gæti unnið hreinan meirihluta sæta á þinginu í Edinborg.

SNP vill nýja þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði

Leiðtogar SNP hafa lýst yfir að þau vilji efna til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands. Aðstæður hafi gjörbreyst frá atkvæðagreiðslunni 2014 þegar Skotar kusu að vera áfram innan Sameinaða konungdæmisins Stóra-Bretlands, United Kingdom. Útganga Breta úr Evrópusambandinu -gegn vilja meirihluta Skota- hafi skapað nýjar forsendur. 

Sara Smith, Skotlandsritstjóri breska ríkisútvarpsins, segir að SNP telji sig fá umboð til að efna til nýrrar þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands fái flokkurinn meirihluta þingsæta.

Ekki Skota einna að ákveða þjóðaratkvæðagreiðslu

En málið er ekki svo einfalt, breska stjórnin í Lundúnum verður að samþykkja nýja þjóðaratkvæðagreiðslu. Boris Johnson forsætisráðherra hefur sagt að ekki komi til greina að Skotar fái að kjósa aftur um sjálfstæði, atkvæðagreiðslan 2014 hafi átt að útkljá málið í mannsaldur. 

Sturgeon segir Skota að ákveða framtíð sína

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra Skotlands og leiðtogi SNP, segir að það sé skosku þjóðarinnar að ákveða framtíð sína, ekki hennar né Johnsons. Komi í ljós að vilji Skota standi til sjálfstæðis hafi Johnson engan rétt til að standa í vegi fyrir lýðræðinu. Endanleg úrslit í Skotlandi verða ekki ljós fyrr en á laugardag.

Víðar kosið en í Skotlandi

Bretar kjósa einnig í dag um 4000 bæja- og sveitastjórnarfulltrúa, 13 borgarstjóra og fjölmarga aðra embættismenn. Borgarstjórakosningar eru í nokkrum fjölmennustu borgum landsins, Lundúnum, Birmingham, Manchester og Liverpool. Búist er við að Sadiq Khan, sem er í Verkamannaflokknum, verði endurkjörin borgarstjóri Lundúna, en meiri óvissa er annars staðar.

Íhaldsflokkurinn virðist standa vel

Almennt virðist staða Íhaldsflokksins vera að styrkjast og kannanir spá því til dæmis að Verkamannaflokkurinn missi þingsæti í Hartlepool í norðausturhluta Englands - en flokkurinn hefur haldið sætinu frá því kjördæmið varð til 1974. Aukakosningar eru þar vegna afsagnar þingmanns Verkamannaflokksins sem sakaður var um kynferðislegt ofbeldi. Það yrði fjöður í hatt Íhaldsflokksins að vinna í Hartlepool og staðfesting á að flokknum hefði tekist að veikja Verkamannaflokkinn á stöðum sem áður voru höfuðvígi hans.