Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Skerðing á skólastarfi í kjölfar bólusetningar

06.05.2021 - 19:40
Mynd úr safni. - Mynd: RÚV / RÚV
Kennarar sem eru framarlega í stafrófinu fengu bólusetningu í gær með bóluefni Janssen. Margir þeirra voru frá vinnu í dag vegna veikinda og víða var þriðjungur til helmingur starfsfólks veikur. Á leikskólanum Tjörn veiktust til að mynda átta af þeim tíu starfsmönnum sem voru bólusettir.

„Ég stýri tveimur húsum og hérna megin þarf ég að biðla til foreldra í fyrsta skipti á mínum ferli að koma og sækja börnin fyrr í dag,“ segir Hulda Ásgeirsdóttir, leikskólastjóri.

Hún segir að leikskólakennarar fagni því að vera loks bólusettir þrátt fyrir þessi veikindi. „Við erum metin sem framlínustarfsmenn. Það kom að því og við erum mjög þakklát fyrir það. Það er gríðarlega þarft til að við getum staðið vaktina áfram,“ segir hún.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, tekur í sama streng. „Það er bara þessi hraði og þetta mikilvægi að koma þessum hópi í öruggt skjól með bólusetninguna sem er sett á oddinn og því bitnar það á þjónustu en það er viðbúið miðað við hversu margir það eru sem veikjast eftir bólusetningu,“ segir hann.

Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur í sóttvörnum, segir að tíðni aukaverkana af bóluefni Janssen sé svipuð og við fyrstu sprautu af efni AstraZeneca. „Það mætti skoða það að skólarnir sendi færri og verði þá bara boðaðir aftur seinna,“ segir hún.

Það var hins vegar ljóst að margir foreldrar sýndu því skilning að þurfa að sækja börn sín fyrr í dag.

„Ég er á þannig vinnustað að ég get skroppið frá og við erum náttúrulega öll í þessu saman þannig að það var ekkert mál sem betur fer,“ segir Eva Sigrún Guðjónsdóttir. „Ég verð eiginlega að hrósa starfsfólki leikskóla á Íslandi fyrir frábæra frammistöðu. Þessir framlínustarfsmenn sem eru fyrst núna að fá bólusetningu. Hugi minn hefur getað mætt á leikskólann daglega,“ segir hún.