Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Skaðabótalögin eiga að vernda embættismenn

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Skaðabótalögin eiga að koma í veg fyrir að mál séu höfðuð gegn einstaka starfsmönnum og embættismönnum stofnana. Þetta segir sérfræðingur í vinnurétti. Atvinnurekendur séu almennt ábyrgir fyrir tjóni sem starfsmenn valda.

Samherji kærði í apríl 2019 fimm starfsmenn Seðlabanka Íslands vegna meintra brota í starfi í tengslum við rannsókn gjaldeyriseftirlits bankans á hendur fyrirtækinu. Lögreglustjórinn á Vestfjörðum rannsakaði málið en vísaði kærunni frá í byrjun mars.

Í viðtali við Stundina nýverið kallaði Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri, eftir því að Alþingi setji lög þar sem opinberum starfsmönnum og embættismönnum væri veitt vernd gegn slíkum málsóknum. Það væri ótækt að einkafyrirtæki gæti ráðist persónulega að þeim með slíkum hætti.

Lára V. Júlíusdóttir, sérfræðingur í vinnurétti, segir að gera verði greinarmun á refsiverðum brotum sem starfsmenn framkvæma, og brotum sem leiða til skaðabótaskyldu. 

„Varðandi refsibrot, þá er það lögreglan og réttarkerfið sem tekur á því. Það er hægt að kæra slíkt brot til lögreglu, sem tekur slík brot til rannsóknar, sendir mál til saksóknara sem gefur þá út ákæru eftir atvikum, og málið fer fyrir dóm þá leiðina. Refsiverð brot eru náttúrulega þess háttar að einstaka atvinnurekendur eða fyrirtæki sækja fólk ekki til refsingar, það er hið opinbera sem gerir það.“

Yfirleitt ekki gert

Lára bendir hins vegar á að þegar um er að ræða brot starfsmanna sem leiða til bótaskyldu, þá takmarki skaðabótalögin að einhverju leyti skyldur starfsmanna til bótagreiðslna.

„Í skaðabótalögum eru ákvæði um húsbóndaábyrgð eða vinnuveitendaábyrgð og samkvæmt reglum um vinnuveitendaábyrgð, þá ber að höfða mál gegn vinnuveitandanum eða fyrirtækinu eða stofnuninni, sem er þá ábyrg fyrir skaðaverkum starfsmanna. Það er líka hægt að höfða mál gegn einstaka starfsmönnum en það er yfirleitt ekki gert, og það hefur almennt ekki verið gert í íslenskri réttarframkvæmd í gegnum tíðina.“

Lára segir að á undanförnum árum hafi slík mál þó komið fyrir dómstóla.

„Eins og til dæmis í dómi út af máli sem var höfðað gegn Leikfélagi Reykjavíkur. Þá var leikhússtjóra líka stefnt í því máli. Og í héraði var hún dæmd til ákveðinna bótagreiðslna, en hún var síðan sýknuð í Landsrétti. Þetta mál kann mögulega að verða þess valdandi að það verði í auknum mæli farin sú leið hjá fyrirtækjum eða hjá þeim sem telja sig verða fyrir skaða vegna starfsmanna, að þeir höfði mál beint gegn starfsmönnum,“ segir Lára. 

„En ég myndi telja að hingað til höfum við litið svo á hér á landi að skaðabótalögin ættu að koma í veg fyrir slíkt. Það er að segja að starfsmenn séu dekkaðir með þessari svokölluðu vinnuveitendaábyrgð. Og viðskiptamenn fyrirtækjanna ættu að vera tryggðir með þessari vinnuveitendaábyrgð, það er að segja að það er atvinnurekandinn eða stofnunin eða fyrirtækið sem ber ábyrgð á skaðaverkum starfsmanna sinna.“

En ef kúltúrinn fer að breytast og fólk fer frekar að höfða mál gegn starfsmönnunum, finnst þér að þá þurfi að bregðast við til að vernda embættismenn?

„Ég á von á því að þá vakni upp umræðan um slíka vernd, og hvort hún er nauðsynleg, og að hve miklu marki hún er nauðsynleg. En hingað til höfum við ekki þurft á slíkri vernd að halda,“ segir Lára.