Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ólíkar áherslur varðandi lækkun hámarkshraða í borginni

Meirihlutinn í Reykjavík hefur samþykkt að lækka hámarkshraða víða í borginni niður í 30 til 40 kílómetra á klukkustund. Umferðaröryggi eru helstu rökin fyrir lækkun hámarkshraðans. Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna og Pawel Bartoszek, borgarfulltrúi Viðreisnar tókust á um þessi mál í Kastljósi kvöldsins.

Eyþór segir minnihlutanum umhugað um umferðaröryggi, bæta þurfi aðgengi gangandi og hjólandi með markvissum aðgerðum. Gagnrýnin snúi að því að þegar hraði sé lækkaður á stærri götum sé hættan sú að umferð leiti inn í hverfin.

Einnig eigi að fækka ljósastýrðum gatnamótum í borginni. „En það væri miklu ábyrgara að fara í að fækka hættulegum gatnamótum sem við höfum lagt áherslu á og bæta aðgengi gangandi vegfarenda eins og við höfum barist fyrir.“ 

Pawel hafnar þeim rökum að umferðin færist til og tekur dæmi af Suðurlandsbraut þar sem til stendur að lækka hraðann í 40 kílómetra á klukkustund á næstu árum.

„Þá meikar ekki sens að okkar mati að þær séu nokkuð annað en 40 gata. Þá eru litlar líkur á því að fólk fara af þessari götu sem er 40 kílómetra gata inn í hverfið sem eru 30 götur.“ 

Áætlanir um Borgarlínu eigi að verða til þess að umferð einkabíla um götur borgarinnar minnki. Eyþór segir tillögu meirihlutans sýna að ferðatími vegna lækkunar umferðarhraða aukist mjög. „Ferðatíminn mun aukast um 8.800 klukkustundir á hverjum degi.“ 

Pawel segir að tíu til tólf mínútna ferðalag lengist við breytingarnar um 30 sekúndur.

„Fyrir þessar þrjátíu sekúndur fær íbúinn auðvitað miklu heilnæmara umhverfi í kringum sig, miklu öruggara umhverfi fyrir börnin sín og miklu lífvænlegra umhverfi fyrir alla. Minni hávaða til dæmis.“