Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Krefjast banns við vopnasölu til Mjanmar

06.05.2021 - 06:44
epa09180100 Demonstrators hold a banner reading 'Eradicate the Fascist Army by Gen Z' during an anti-military coup protest in Mandalay, Myanmar, 06 May 2021. According to the United Nations (UN), the ongoing protests against the military coup, along with the effect of the COVID-19 pandemic, could lead to nearly 25 million people, or half of Myanmar's population, to live in poverty by early 2022.  EPA-EFE/STRINGER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfir tvö hundruð alþjóðasamtök sendu Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna áskorun um að ráðið beiti kröftum sínum til þess að koma á alþjóðlegu vopnasölubanni til hersins í Mjanmar. Ekkert lát er á aðgerðum hersins gegn mótmælendum í landinu sem krefjast endurreisnar lýðræðis. 

Lawrence Moss, fulltrúi mannréttindasamtakanna Amnesty International hjá Sameinuðu þjóðunum og talsmaður hóps alþjóðasamtakanna, segir að hingað til hafi fordæming alþjóðasamfélagsins engu skilað. Kominn sé tími til að grípa til harðari aðgerða. Því kallar hópurinn eftir því að Bretar, sem skrifa drög varðandi Mjanmar í Öryggisráðinu, hefji þegar í stað viðræður innan ráðsins.

Lagt er til að Öryggisráðið búi til drög að tilskipun um vopnasölubann til Mjanmars, hefur Al Jazeera eftir Moss. Ekki nokkur stjórn í heiminum ætti að selja herstjórninni svo mikið sem eitt byssuskot, segir í áskorun samtakanna. Alþjóðlegt vopnasölubann er algjört lágmark, ætli öryggisráðið sér að grípa til aðgerða gegn vaxandi ofbeldi herstjórnarinnar.

Nánast dagleg mótmæli hafa verið í Mjanmar frá því herstjórnin rændi völdum 1. febrúar. Þúsundir voru handteknar, þar á meðal réttkjörnir þingmenn og aðrir stuðningsmenn réttkjörinna stjórnvalda í landinu. Herinn taldi að svindlað hafi verið í kosningunum og rændi völdum rétt áður en nýkjörnin þingmenn áttu að koma saman. Nærri 770 hafa verið drepnir í aðgerðum herstjórnarinnar gegn mótmælendum og yfir 4.500 hafa verið handtekin.