Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Keyptu miða sem ekki áttu að fara í sölu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Keyptu miða sem ekki áttu að fara í sölu

06.05.2021 - 18:11
Stuðningsmenn handknattleiksliðs Þórs/KA urðu fyrir því óláni að versla miða á útileik liðsins gegn Fram sem búið hafði verið að láta af hendi og ekkert á bak við kaupin. Starfsmaður handknattleiksdeildar Fram segir að um mannleg mistök sé að ræða.

Málið á rætur sínar að rekja til Stubbs miðasöluforritsins sem notast hefur verið við í dágóðan tíma. Stuðningsmenn Þórs/KA og aðstandendur leikmanna hugsuðu sér gott til glóðarinnar og keyptu miða sem birtust í forritinu í gær og margir hverjir bókuðu hótel og flug sömuleiðis að sögn Ásdísar Guðmundsdóttur leikmanns Þórs/KA. Leikur liðanna fer fram á laugardaginn í Safamýrinni.

Samkvæmt Facebook-síðu handknattleiksdeildar Fram fóru 70 miðar fyrir mistök í sölu hjá Stubbi.

„Stubb appið birtir miða fyrir leiki og við kíkjum þremur dögum fyrir leik og sjáum til þess að það fari engir miðar inn og allt í góðu,“ sagði Þorgrímur Smári Ólafsson starfsmaður handknattleiksdeildar Fram í samtali við RÚV í dag.

„Svo látum við alla okkar árskortshafa sem greiða sitt mánaðarlega gjald hafa 100 miða á leikinn, og þar með orðið fullt á leikinn. Svo eftir að við sjáum fram á að geta boðið Akureyringum 10 miða á leikinn kom i ljos að miðarnir voru farnir í sölu á Stubb og 30 miðar farnir. Við kennum alls ekki Stubb forritinu um þetta, þetta eru bara mannleg mistök og við höfum beðist afsökunnar fyrir þennan leiðinda misskilning við norðanmenn.“

Fyrir þá stuðningsmenn sem keyptu miða býður Stubbur upp á endurgreiðslu.