Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hluti kínverskrar eldflaugar fellur til jarðar

06.05.2021 - 22:38
Mynd með færslu
 Mynd: CCTV
Búist er við að ríflega 20 tonna kínversk eldflaug hrapi til jarðar á næstu dgöum. Bandarísk hermálayfirvöld ætla sér ekki að granda flauginni en vísindamenn fylgjast grannt með ferð hennar inn fyrir gufuhvolfið.

AFP-fréttastofan hefur eftir Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna að þrátt fyrir að mögulegt væri að skjóta hana niður séu engar áætlanir uppi um að gera það.

Sérfræðingar varnarmálaráðuneytisins búast við að eldflaugin nái til jarðar á laugardag eða sunnudag en nánast ómögulegt sé að spá fyrir um hvar hún lendi.

Mestar líkur séu að það verði á óbyggðu landsvæði eða á hafi úti. Austin kennir vanrækslu Kínverja um hvernig fór fyrir eldflauginni en hún var notuð við að skjóta fyrsta hluta nýrrar geimstöðvar þeirra á loft í lok apríl. 

Flaugin fór af sporbaug eftir að hún losnaði frá geimstöðinni og tók þá stefnuna í átt til jarðar.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV