Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Hljóð í hernaði

Mynd: - / Wikimedia Commons

Hljóð í hernaði

06.05.2021 - 16:14

Höfundar

Hljóð getur haft ýmsa virkni í samskiptum dýra, þau syngja til að laða að sér maka, þau öskra og æpa til að hræða andstæðinga. Við mannfólkið erum engin undantekning, við njótum þess að hlusta á fallega tónlist en hávær og skerandi hljóð geta verið sársaukafull. Þetta gerir hljóð að vænlegu vopni til að stýra fólki. Þórður Ingi Jónsson skoðar hvernig hljóði hefur verið beitt í hernaði í fortíð og samtíð.

Þórður Ingi Jónsson skrifar: 

Notkun hljóðs og hávaða í hernaði á sér langa sögu, þar sem maðurinn hefur nýtt hljóðheiminn til að gera andstæðingnum erfitt fyrir, hræða hann og vinna á honum sigur.

Það síðasta sem stóð upp úr í fréttum af þessum toga var þegar starfsfólk í sendiráði Bandaríkjanna á Kúbu fór að kvarta undan skrýtnum hljóðum sem það taldi að væri beint gegn sér. Þetta hófst allt saman í nóvember árið 2016, rúmum þremur vikum eftir að Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hóf stjórnarsetu sína.

Bandarískir og kanadískir sendiráðsstarfsmenn fóru að kvarta undan skerandi hátíðnihljóðum og í kjölfarið ýmiss konar veikindum sem rakin væru til þessara dularfullu hljóða, sem starfsfólkið taldi sig verða vart við. Kvartanir þessar og veikindin fengu nafnið Havana-heilkennið.

Fljótlega varð þetta hluti af eins konar kaldastríðs-þriller og einkenndist umræðan óneitanlega af vænisýki og samsæriskenningum, eins og raunin er oft í svona málum tengdum leyniþjónustum. Talað var um leynileg hljóðvopn sem ríkisstjórn og leyniþjónusta Kúbu voru sökuð um að nota en umrædd yfirvöld könnuðust reyndar ekkert við.

Það, að eins konar kraftmiklu hljóðvopni hafi verið beitt þarna, hefur aldrei verið sannað en vísindamenn hafa sett fram ýmsar kenningar um hvað gæti hafa verið á ferðinni.

Staðreyndin er þó sú að svipuð eða sams konar vopn og Kúbverjar voru sakaðir um að hafa beitt eru í notkun í nútímahernaði og af lögreglu víða um heim. Þannig hefur hljóðvopn eins og LRAD-byssan verið notuð víða, til dæmis við strendur Sómalíu árið 2005 þegar sjóræningjar reyndu að ráðast á skemmtiferðaskip. Slík vopn hafa líka verið notuð í stríðinu í Írak og Afganistan og einnig af bandarísku lögreglunni, til dæmis í Occupy Wall Street og Ferguson-mótmælunum á sínum tíma.

LRAD-vopnið varpar hljóði sem getur farið í desíbelum langt yfir sársaukaþröskuld mannsins. LRAD hefur líka stundum verið kölluð „rödd guðs“ því hljóðin virðast koma innan úr hausnum.

Það eru ekki bara herir heimsins sem hafa áhuga á slíkum hljóðvopnum, heldur einnig stórfyrirtæki, sem gera nú tilraunir með því að varpa auglýsingum að okkur með þessum hætti. Veröld ný og góð, svo sannarlega!

Sem vopn voru þessar hljóðbyssur búnar til í því skyni að halda fólki í skefjum án þess að líkamlegir áverkar hlytust af, en það er samt býsna mikil einföldun á krafti vopnanna. Árið 2005 kom í ljós að ísraelski flugherinn hefði notað svokallaðar „hljóðsprengjur“ á Gaza-svæðinu, sem meðal annars sprengdu glugga, ollu blóðnösum og blæðingum úr eyra, fósturlátum, kvíðaköstum, svefnleysi, háum blóðþrýstingi og ósjálfráða líkamskippum.

Notkun hljóðs í hernaði á sér langa og litríka sögu. Fræg er sagan úr Jósúabók þegar gyðingar sigruðu Kananíta og Jeríkóborg með því að jafna veggi borgarinnar við jörðu með kraftmiklum lúðrablæstri. „Jeríkó var umlukt, rammlega víggirt og lokuð,“ segir í hinni helgu bók. „Þar komst enginn út eða inn. Drottinn sagði við Jósúa: „Ég sel Jeríkó þér í hendur. Sjö prestar skulu bera hafurshorn fyrir örkinni. Þegar hafurshornin kveða við og þið heyrið hornablásturinn skal allt fólkið æpa mikið heróp.“ Nú æpti fólkið heróp og hafurshornin voru þeytt og borgarmúrinn hrundi til grunna.“

Í Njáls sögu og reyndar víða í fornsögunum heyrast líka heróp og vopnaglamur, eins og þegar barist var á Alþingi í eftirmálum Njálsbrennu. „Var þá kall mikið um allan herinn og síðan var æpt heróp mikið,“ segir höfundur Njáls sögu.

Rómverski sagnaritarinn Tacítus ritaði um stríðsöskur, sem hermennirnir mögnuðu upp um allan helming með því að bera skildi sína með sérstökum hætti fyrir framan varir sínar og munn.

Fjöldi hljóðfæra, sérstaklega trommur, horn- og blásturshljóðfæri, hafa verið notuð í hernaði og eiga sum hljóðfæri jafnvel uppruna sinn þar.

Eitt dularfyllsta hljóðfæri sögunnar er hin svokallaða dauðaflauta Asteka, leirflauta, sem framkallar ógnvænlegt hljóð, sem hljómar eins og öskur í óargadýri eða djöfli. Ein slík flauta fannst í fornleifauppgrefti í Mexíkó-borg árið 1999 en flautan var í krumlu beinagrindar af ungum manni sem hafði verið fórnað fyrir framan hið forna Ehecatl-hof í Tlatelolco en Ehecatl var guð vindsins. Ef hljóðfærið hefur verið notað í hernaði, þá hefur það væntanlega verið vegna hins ógnvekjandi hljóms sem flautan framkallar og hér má heyra.

Bókin Sonic Warfare er ein þekktasta bók sem rituð hefur verið um þetta viðfangsefni en höfundur hennar er enginn annar en Steve Goodman, betur þekktur sem Kode9, einn virtasti plötusnúður og raftónlistarmaður heimsins í dag.

Eitt af mörgum dæmum sem Goodman nefnir í bók sinni er úr Marúnastríðinu í Jamaíku en Marúnar voru strokuþrælar sem komust undan og stofnuðu sín eigin samfélög víðs vegar um Ameríku og karabísku eyjarnar. Bresku nýlenduherrarnir héldu upp til fjalla til að reyna að sigra Marúna, sem stunduðu skæruhernað. Þeir eru sagðir hafa notað hornhljóðfæri sem kallast abeng til að eiga í samskiptum sín á milli í frumskóginum. Brátt varð Marúnum ljóst að Bretarnir hræddust þessi hátíðnihljóð, ekki síst þar sem þeir vissu ekki hvaðan eða úr hverju þau komu. Bretarnir voru ekki á heimavelli og Marúnarnir notuðu hornin óspart þegar þeir sátu fyrir herjum böðla sinna, sem endaði með því að Bretarnir gáfust upp.

Í byrjun 20. aldar tók þróun hljóða í hernaði síðan vaxtarkipp, ekki síst þegar hátalarinn var fundinn upp en honum hefur verið beitt á ýmsa vegu í hernaði. Því hefur verið haldið fram að uppfinning hátalarans hafi gert það að verkum að nasismi og fasismi breiddust út jafn hratt í Evrópu og raun bar vitni. Þá notuðu bandamenn hátalara í seinni heimsstyrjöld til að spila skriðdrekadrunur, til að her þeirra gæti virst enn stærri fyrir óvininum.

Nasistar kölluðu Stuka-flugvélar sínar „Jeríkó-lúðra“ vegna hinna skelfandi hljóða sem vélarnar gáfu frá sér í dýfunni. Nasistarnir þurftu reyndar síðan að breyta smíðinni þar sem hávaðinn var einnig óbærilegur fyrir flugmennina um borð.

Í Víetnam-stríðinu lét bandaríski herinn framleiða upptöku sem kallaðist Draugaspóla númer 10, sem spiluð var í frumskóginum til að reyna að hrella hermenn Víetkong, með misjöfnum árangri. Spólan var blanda af óhugnanlegum skrækjum, jarðarfarartónlist búddista og draugaröddum, sem biðluðu til hermanna Víetkong að flýja, þar sem sálir þeirra myndu vafra um skógana að eilífu ef líkamar þeirra yrðu ekki grafnir á heimareit, samkvæmt víetnamskri þjóðtrú.

Norður-Víetnamarnir sneru þó vörn í sókn og tóku upp sínar eigin upptökur sem spilaðar voru fyrir bandarísku hermennina. Frægastar þeirra voru útvarpsþættir Hanoi Hönnuh, víetnamskrar útvarpskonu sem beitti sálfræðilegum hernaði í gegnum útvarpssendingar sínar.

Eftir að bandaríski herinn galt afhroð í Víetnamstríðinu var liðsandinn í sögulegu lágmarki innan hersins. Nokkrir háttsettir hermenn sóttu til nýaldarhreyfingarinnar í Kaliforníu, sem varð til á hippaárunum, og alls kyns húmanískar hugmyndir um friðargæslu fóru að festa rætur. Ein af þessum hugmyndum var að spila sýrurokk sem hefði verið klippt til úr samstillingu, til að rugla óvininn í ríminu.

Vandamálið var þó að í langan tíma hafði herinn í raun enga óvini til að prófa þessar nýju aðferðir á. Áratugum seinna, í umsátri bandarískra yfirvalda gegn sértrúarsöfnuði David Koresh í Waco í Texas, fengu þeir loksins tækifæri til að prófa þessar nýstárlegu hugmyndir. Fregnir af sálfræðilegum pyntingum höfðu gengið manna á milli í hernum í mörg ár. Dögum saman spilaði herinn upptökur af Nancy Sinatra syngjandi These Boots Are Made for Walkin, óhljóð og hávaða, tíbetska munkasöngva og upptökur af deyjandi kanínum. Waco-umsátrið endaði síðan í harmleik þar sem söfnuðurinn brann inni. 

Áratugum seinna, í stríðunum í Írak og Afghanistan, fékk herinn síðan aftur tækifæri til að prófa þessar aðferðir, en notkunin var nú hvorki húmanísk né friðsæl. Í skipagámum í Írak og í fangelsunum í Abu-Ghraib og Guantanamo spilar herinn tónlist í yfirheyrslum – sama lagið spilað í heilan sólarhring á miklum hljóðstyrk til að fá fanga til að leysa frá skjóðunni. Fréttir af þessum sálfræðilegu pyntingum hersins voru reyndar sagðar í gríni og hálfkæringi þegar bandarískir fjölmiðlar greindu upphaflega frá þessu.

Stríðsherrarnir Donald Rumsfeld og George Bush voru harðir á því að pyntingarnar í Abu Ghraib-fangabúðunum væru aðeins myrkraverk nokkurra slæmra einstaklinga, sem endurspegluðu alls ekki stefnu eða gildi hersins. Þó segir konan sem sást pynta fangana á ljósmyndunum í viðtali við CBS fréttastöðina að hún hefði reyndar verið beðin af hærra settu fólki í hernum til að sitja fyrir á myndunum, nánar tiltekið Psy-Ops eða sálfræðihernaðardeildinni.

 

Hljóð eru ekki bara notuð í hernaði til að hafa áhrif á fólk og nærumhverfið heldur einnig í daglegu lífi. Moskító-vélin er notuð til að koma í veg fyrir umgang unglinga á skólalóðum og í verslunarmiðstöðvum, þar sem vélin gefur frá sér hátíðnihljóð sem aðeins ungt fólk getur heyrt. Þá eru svokölluð innhljóð oft notuð í hryllingsmyndum, því þessi lágtíðnihljóð eru talin framkalla ugg og ótta í brjósti fólks.

Við vitum að hljóð og tónlist hafa áhrif á sálarlíf okkar og líkama en hvernig þau áhrif eru og hvað þau gera okkur nákvæmlega er hins vegar vitað minna um. Við vitum að það er eitthvað, en hvað, vitum við ekki.