Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Héraðssaksóknari þarf ekki að eyða gögnum um Samherja

06.05.2021 - 15:18
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur um að embætti héraðssaksóknara þurfi ekki að eyða gögnum sem aflað var hjá endurskoðunarfyrirtækinu KPMG í tengslum við rannsókn á Samherjaskjölunum. Samherji taldi að héraðssaksóknari hefði aflað gagnanna ólöglega.

Málið á sér nokkra forsögu.

Það má rekja til úrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í byrjun desember þar sem fallist var á kröfu héraðssaksóknara um að endurskoðunarfyrirtækinu KPMG yrði gert að afhenda upplýsingar og gögn allra félaga innan Samherjastæðunnar.

Landsréttur ómerkti þann úrskurð í febrúar og taldi að ekki hefði verið staðið rétt að málsmeðferðinni. Héraðsdómur féllst síðan aftur á kröfu héraðssaksóknara í byrjun mars og var sá úrskurður einnig kærður til Landsréttar. Honum var vísað frá þar sem gagnaöflun héraðssaksóknara var þegar lokið.

Samherja leitaði í millitíðinni til eftirlitsnefndar með störfum lögreglu vegna saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara og svo nefndar um dómarastörf í tengslum við framgöngu héraðsdómara. Kvartanirnar sneru allar að úrskurði héraðsdóms frá því í desember en var báðum vísað frá. Nefnd um dómarastörf benti á að kvörtun fyrirtækisins hefði snúist um dómsúrlausn héraðsdómara sem hægt var að bera undir æðri dóm.

Um miðjan síðasta mánuð krafðist fyrirtækið þess svo að héraðssaksóknari eyddi rafrænum gögnum sem embættið hefði fengið á grundvelli úrskurðarins frá því í desember. Þetta voru meðal annars tölvupóstar og afrit af sameiginlegum skráarsvæðum með upplýsingum um fjölda fyrirtækja. 

Lögmaður Samherja taldi að gagnaöflun og rannsóknaraðgerðir héraðssaksóknara hefðu verið ólögmætar og vísaði þar til úrskurðarins í desember. Hann sagði óhjákvæmilegt að fallast bæri á kröfu félagsins að gögnunum yrði eytt.

Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, flutti málið sjálfur í héraðsdómi og fyrir Landsrétti. Hann sagði úrskurð héraðsdóms frá því í mars hafa bætt að fullu úr þeim göllum sem hefðu verið síðan í desember og að það hefði tekið til allra þeirra gagna sem embættið hefði aflað. 

Héraðsdómur leit svo á að búið væri að fallast á lögmæti gagnaöflunarinnar og því gæti það ekki þjónað tilgangi að eyða þeim gögnum að hluta eða öllu leyti til þess eins að afla þeirra að nýju. Þá féllst dómurinn heldur ekki á að Samherji væri eigandi þessari gagna. Undir það tók Landsréttur sem staðfesti því úrskurð héraðsdóms.

KPMG-málið er ekki það eina sem ratað hefur fyrir dómstóla hér á landi í tengslum við Samherjaskjölin. Í desember hafnaði Héraðsdómur Reykjavíkur kröfu Ingvars Júlíussonar, fjármálastjóra Samherja á Kýpur, varðandi réttarbeiðnir sem sendar voru frá Namibíu til héraðssaksóknara. Ingvar krafðist þess að lögmaður hans fengi afrit af öllum skjölum sem afhent voru namibískum stjórnvöldum. Í úrskurðinum kom fram að Ingvar hefði áður leitað til dómstóla með svipaða kröfu en verið hafnað.

Þá hefur Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, kært uppljóstrarann Jóhannes Stefánsson til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir rangar sakargiftir. Kæran snýr að fullyrðingum um tilraun til manndráps og frelsissviptingar. 

Samherji kvartaði einnig til siðanefndar RÚV vegna skrifa ellefu fréttamanna á samfélagsmiðlum sínum. Kvörtunum gegn öllum fréttamönnum nema einum, Helga Seljan, var vísað frá. Samherji hefur krafist þess, bæði með myndböndum á samfélagsmiðlum og auglýsingu á mbl.is, að Helga verði bannað að skrifa um málefni Samherja. Útvarpsstjóri hefur sagt að úrskurður siðanefndar hafi engin áhrif á störf hans.

Samherjaskjölin eru nú til rannsóknar hér á landi og fram kom í fréttum í fyrra að sex starfsmenn hefðu réttarstöðu sakbornings. Slík réttarstaða veitir fólki ákveðin réttindi þegar það er kallað til skýrslutöku.