Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Covid-veiran í tónlist

Mynd með færslu
 Mynd: Andy Mettler. - Wikimedia Commons.

Covid-veiran í tónlist

06.05.2021 - 18:30

Höfundar

Eins og flestir vita hafa margir listamenn lagt sitt af mörkum til þess að reyna að gera fólki lífið bærilegra á tíma Covid-faraldursins og nýlega hafa komið út geislaplötur með tónlist sem tengist faraldrinum beint eða óbeint. Þar á meðal eru hljómdiskarnir „Songs of Comfort & Hope“ (Söngvar um huggun og von) og „Isolation songbook“ (Einangrunarsöngbókin).

 

Á fyrrnefndu geislaplötunni leika sellóleikarinn Yo-Yo Ma og píanóleikarinn Kathryn Stott hugljúf lög, en á hinum síðarnefnda flytja söngvararnir Helen Charlston og Michael Craddock og píanóleikarinn Alexander Soares sönglög sem beinlínis voru samin með Covid-faraldurinn í huga.

Söngvar um huggun og von

Í formála með geislaplötunni „Songs of Comfort & Hope“ segja flytjendurnir, Yo-Yo Ma og Kathryn Stott:

„Söngvar um huggun og von“ urðu til í apríl 2020 þegar fólk allsstaðar steig inn í nýjan gjörbreyttan heim, heim þar sem við höfum verið aðskilin frá ástvinum okkar og margir hafa fyllst ótta og einmanaleika. Við vonum að þessar gamalkunnugu og nýju tónsmíðar gefi ykkur huggun og von.

Á hljómdiskinum má meðal annars finna lagið „We´ll meet again“ (Við hittumst aftur) sem Elísabet Englandsdrottning vísaði til þegar hún ávarpaði bresku þjóðina í Covid-faraldrinum 5. apríl 2020. „We´ll meet again“ var eitt vinsælasta dægurlagið á árum seinni heimsstyrjaldar, söngur um von um betra líf að stríði loknu, og það þótti ekki eiga illa við að vitna í hann á tíma þessa erfiða heimsfaraldurs.

Frestaði brúðkaupinu vegna Covid og orti ljóð um það

Í formála með geislaplötunni „Songs of Isolation“ segir söngkonan Helen Charlston að öll einangrunin sem fylgdi viðbrögðum við Covid-faraldrinum hafi verið sérlega erfið fyrir tónlistarmenn, vinna þeirra felst að miklu leyti í því að koma fram á tónleikum, en nú voru þeir bannaðir. Til þess að leita nýrra leiða hafði Helen samband við fjögur skáld og fimmtán tónskáld og pantaði hjá þeim nýja söngva. Söngvarnir voru fluttir opinberlega á tónleikum sem var streymt 29. júlí 2020. En eitt ljóðið orti Helen sjálf og fjallar það um þau persónulegu áhrif sem Covid-veiran hafði á líf hennar og meðsöngvara hennar, Michaels Craddock. Þau höfðu ætlað að gifta sig 18. apríl 2020, en að sjálfsögðu varð að fresta brúðkaupinu. Í ljóðinu segir Helen:

Hvað ef þau hefðu ákveðið aðra dagsetningu? Hvað ef það hefði farið fram eins og til stóð? Hátíð, strengd heit, hönd í hönd. Satínið hangir í þögn og hefur verið lagt til hliðar fyrst um sinn. Þau hafa ekki strengt heitin, en lifað þau í gleði. Gullnu hnettirnir liggja þolinmóðir í vetrardvala í öskjum sínum. Nú sitja þau í þögulli sameiningu og skiptast á augngotum og bókum og kaffi. Ógreitt hárið strokið frá enninu. Minnsta bros, dýpsta umhyggja. Þau hafa vogað sér inn í ljós ástarinnar og endurspeglun þess verður dýrð þeirra.

Ljóðið heitir „18. apríl“, en þann dag höfðu Helen og Michael ætlað að gifta sig. Vinur þeirra, Owain Park, samdi lag við ljóðið.

Í þættinum „Á tónsviðinu“ fim. 6. maí 2021 verða flutt lög af þessum nýju geislaplötum og einnig tónverk frá fyrri öldum sem samin voru á tíma drepsóttar.

Mynd: Yo-Yo Ma sellóleikari. Ljósmyndari: Andy Mettler.