Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Atvinnuleysi að minnka: „Fyrirtæki eru að ráða“

Mynd: Rúv / Rúv
Atvinnuleysi í Reykjanesbæ er byrjað að minnka og störf að bjóðast. Hvergi á landinu hefur atvinnuleysi mælst meira en þar undanfarin misseri. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir að fólk sé farið að fara út af atvinnuleysisskrá og að fyrirtæki séu farin að ráða fólk til starfa. Flest störfin tengist auknum umsvifum á Keflavíkurflugvelli.

„Já við bæði könnumst við það, finnum það og þóttumst vita að þetta færi svona, að þetta væri skammtímaástand. Þetta mikla atvinnuleysi hér væri til skamms tíma. Þetta væri djúp en kröpp lægð en við erum bjartsýn á að nú fari Eyjólfur að hressast,“ sagði Kjartan Már á Morgunvaktinni á Rás 1 í morgun.

Ráða á fullu

Kjartan Már segir að fólk sé farið að hverfa af atvinnuleysisskrá í bænum.

„Það er að gerast. Fyrirtæki eru að ráða og þetta tengist náttúrulega mjög mikið annars vegar Keflavíkurflugvelli og alls konar starfsemi í kringum hann, og svo framkvæmdum sem eru hér. Iðnaðarmenn eru að ráða til sín fólk alveg á fullu,“ segir Kjartan Már. „Og bæði opinberir aðilar og einkamarkaðurinn eru að nýta þessi úrræði sem Vinnumálastofnun og ríkið eru að nota til þess að hvetja fólk til að skapa ný störf, og sveitarfélögin hafa til dæmis verið að gera það. Þannig að allt leggst þetta saman á árarnar til þess að bæta stöðuna sem var náttúrulega mjög alvarleg. Og er í sjálfu sér alvarleg ennþá þó að þetta sé að byrja að snúast við. Þetta er ekki komið, en við erum bjartsýn.“

Hlusta má á viðtalið við Kjartan Má í heild sinni í spilaranum hér að ofan.