Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

74 þúsund skammtar væntanlegir í maí

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Rúmlega 74 þúsund skammtar af þeim fjórum tegundum bóluefna sem notuð hafa verið hér á landi við COVID-19 eru væntanlegir til landsins í þessum mánuði. Mest munar um rúmlega 50 þúsund skammta af bóluefni Pfizer. Aðeins um fimm þúsund skammtar koma frá AstraZeneca en sú tala gæti hækkað þar sem ekki liggur fyrir skammtafjöldi í síðustu viku mánaðarins. Rúmlega 7.600 skammtar eru væntanlegir frá Janssen og tæplega tólf þúsund frá Moderna.

Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu um staðfestar afhendingaráætlanir frá bóluefnaframleiðendum.  Afhendingaráætlunin hefur verið uppfærð á vef ráðuneytisins.

Bóluefnið frá Pfizer ber áfram uppi bólusetningu hér á landi. Nærri fimmtíu þúsund skammtar berast af bóluefninu í þessum mánuði. Tvo skammta með þriggja vikna millibili þarf til að veita fulla vörn gegn COVID-19.

Það vekur hins vegar athygli hversu fáir skammtar berast af bóluefni AstraZeneca eða tæplega fimm þúsund. Þeir voru um 43 þúsund í síðasta mánuði. Hafa ber í huga að heilbrigðisráðuneytið er ekki komið með staðfesta áætlun fyrir síðustu viku mánaðarins. 

Um 7.500 skammtar berast af bóluefninu frá Janssen en aðeins þarf einn skammt af því bóluefni. Tæplega tólf þúsund skammtar koma frá Moderna en fjórar vikur líða á milli fyrri og seinni sprautunnar.

Rúmlega fjörutíu þúsund voru bólusettir í þessari viku en samkvæmt covid.is hefur fjórðungur þjóðarinnar fengið einn skammt eða fleiri. Nærri einn af hverjum fimm telst nú annað hvort fullbólusettur eða er með mótefni vegna fyrri sýkingar.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV