Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Virðast komin fyrir vind á Suðurlandi

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV
Einn greindist með COVID-19 í skimun í Hrunamannahreppi í gær. Sá hafði verið í sóttkví síðan á miðvikudaginn í síðustu viku. Sveitarstjórinn segist bjartsýnn á að tekist hafi að hefta útbreiðslu sýkingarinnar í sveitinni. Þá virðast bönd vera að komast á hópsýkingu í Þorlákshöfn.

Tvö hundruð og einn var skimaður, þar af börn í Flúðaskóla. Niðurstöður bárust seint í gærkvöldi og einn reyndist með COVID-19. Sá var í sóttkví og að sögn Jóns G. Valgeirssonar sveitarstjóra var sá ekki á grunnskólaaldri. Flúðaskóli og leikskólinn Undraland eru opnir sem og aðrar þjónustueiningar sveitarfélagsins, eins og íþróttahús, sundlaug og bókasafn. 

„Lífið gengur sinn vanagang á ný,“ segir Jón í samtali við fréttastofu. 

Samkvæmt tölum frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands frá því í gær voru fjórir í einangrun í Hrunamannahreppi og 34 í sóttkví. Tuttugu eru í einangrun í Þorlákshöfn og 32 í sóttkví í sveitarfélaginu öllu. Elliði Vignisson bæjarstjóri Ölfuss segir að skólastarf sé orðið hefðbundið en að fólk fari með gát áfram. 

„Við erum komin fyrir vind en þetta getur blossað upp eins og eldur í sinu aftur,“ segir Elliði.